Prédikun í Grafarvogskirkju 26. júlí 2020. Sjöundi sunnudagur eftir þrenningarhátíð.
Matur og við
Öll eigum við í einhverjum tengslum við mat, ýmist góðum, vondum eða bara ósköp venjulegum.
Eittt af því flókna við samband okkar við mat nú til dags er að við höfum, flest sem búum í þessum hluta heimsins, nægan aðgang að honum. En þau sem eiga varla til hnífs og skeiðar eiga frekar fyrir lélegum mat en næringarríkum og hollum. Í stórum hluta okkar heims er hollur matur nefnilega dýrari en óhollur. Þannig er hægt að næra heila fjölskylu mun auðveldar á ódýrum mat frá þekktum skyndibitakeðjum en að kaupa ávexti grænmeti og annan næringaríkan og hollan mat.
Mörg okkar eiga í flóknu sambandi við mat þar sem við notum mat sem umbun eða refsingu, borðum þegar okkur líður illa eða vel eða sveltum okkur þegar okkur líður illa eða vel. Mörg okkar eru stöðugt á einhverjum kúrum, teljum hitaeiningar, sveltum okkar eða borðum alltaf of mikið. Átröskun eru geðrænir erfiðleikar sem okkur ber að taka alvarlega því þær geta orðið lífshættulegar hvort sem við borðum of lítið eða of mikið eða borðum í lotum og köstum upp.
Oft tengist samband okkar við mat hugmyndum okkar um útlit, þessum humyndum um að við eigum helst öll að vera mjó og að það sé merki um agaleysi að vera feit. Og hugmyndin um að grannt fólk sé heilbrigt og að fólk með aukakíló sé óheilbrigt lifir því miður enn góðu lífi þrátt fyrir að þetta sé fyrst og fremst byggt á fordómum og óheilbrigðum hugmyndum samfélagsins um hvað sé heilbrigt og hvað ekki.
Það er nefnilega alls ekki víst að holdafar okkar segi nokkuð til um heilsuna. Þétt fólk getur verið mjög heilbrigt, hlaupið, klifið fjöll, lyft lóðum ja og ræktað andlega lífið með bæn og íhugun svo eitthvað sé nefnt. Grannt fólk getur allt eins verið í lélegu líkamlegu formi, átt erfitt með alla hreyfingu, verið veikburða með lélegt úthald og jafnvel liðið af stöðugu hungri. Já, og svo er líka til grannt fólk sem borðar mikið og æfir líkama og anda en þyngist ekkert fyrir því og þétt fólk sem borðar hóflega, hugsar vel um bæði líkama og sál en grennist þó ekki.
Við erum nefnilega ólík og við eigum að vera það.
Kraftaverk að standa ekki á sama
Biblían er full af sögum er tengjast mat og til eru margar frásögur af Jesú að matast með fólki. Hann býður fólki í mat og fer í mat til annarra. Hann fatsar og „festar“. Já, og hann hvetur okkur til þess að koma saman og borða í sínu nafni í altarisgöngunni. Í guðspjalli dagsins vill hann sjá til þess að fólkið sem hafði komið til að hlýða á hann fari ekki svangt heim. Fólkið hafði verið þarna í þrjá daga án þess að matast og hann var hræddur um að sum þeirra myndu örmagnast á leiðinni heim ef þau fengju ekki næringu áður en þau legðu í hann. Sum þeirra höfðu komið langt að.
Þegar hér er komið sögu þarf næstum því að fara að ræða hvort þarna hafi átt sér stað kraftaverk eða ekki, þegar sjö
brauð og nokkrir fiskar dugðu fyrir fjögurþúsund karla og annan eins fjölda af konum og börnum. Þessi saga, sem er til í einhverri útgáfu í öllum guðspjöllunum fjórum, hlýtur að hafa ratað inn í Biblíuna í fjórum útgáfum vegna þess að hún skipti miklu máli. Ég er þó nokkuð viss að þessi saga er ekki hér í fjórriti vegna þess að Jesú tókst að galdra fram mat handa fjölda manns með kraftaverki. Ég held að þessi saga sé ekki aðeins mikilvæg vegna þess að þetta gerðist heldur sé ástæðan fyrir því að þetta átti sér stað aðalatriði.
Ræðumaðurinn var búinn að tala. Ráðstefnunni var lokið en fólkið var svangt. Jesús hefði vel getað valið að láta sig það engu varða og drifið sig heim. Lærisveinar Jesú hefðu getað gert slíkt hið sama. En í stað þess að láta fólkið eiga sig þá fer Jesús að standa í því að útvega þeim mat. Hann fær vini sína með sér í verkfnið og hvernig sem þeir fara að því, þá tekst þeim að útvega nægan mat og fæða allt fólkið. Jesús er sá sem hvetur lærisveinana til þess að gera eitthvað í málinu því hann lætur sig ekki eingöngu varða hinn andlega boðskap, hina andlegu líðan heldur vill hann að fólk fái næringu og að því líði vel líkamlega.
Verkin tala
Jesús gekk ekki aðeins um og prédikaði með orðum heldur lét hann ekki síður verkin tala. Hann var ekki aðeins á andlega sviðinu heldur lét hann sig varða líðan fólks og afkomu. Þessi framganga Jesú Krist sýnir okkur að Guð lætur sig varða allt er viðkemur lífi okkar og líðan. Guð er ekki aðeins að hugsa um hvort þú sért nógu trúuð eða trúaður, hvort þú farir oft í kirkju eða hvort þú munir eftir bænum þínum. Guð vill að þú sért farsæl manneskja. Guð vill að þér líði vel, líkamlega og andlega.
Ef til vill er Guð því hvatinn á bakvið þörf okkar og löngun til þess að koma náunganum til hjálpar, svona eins og þegar Jesús hvatti lærisveinana til að útvega fólkinu brauð þegar það var svangt. Í það minnsta ber okkur, hverju og einu, að útvega náunga okkar brauð, sé það nokkur möguleiki. En þetta brauð þarf ekki að vera raunverulegt brauð. Það þarf ekki einu sinni að vera matur. Það getur verið hvað eina sem náungi okkar þarfnast. Og jafnvel þegar það virðist ekki möguleiki að koma náunga okkar til hjálpar þá ættum við samt að reyna. Lærisveinarnir áttu aðeins sjö brauð og nokkra fiska en einhvern vegin dugði þetta samt. Á sama hátt er ekki ólíklegt að hjálpargögnin okkar muni margfaldast ef við höfum fyrir því að reyna að koma fólki til hjálpar.
Jesús spáði mikið í mat alveg eins og við gerum flest enda þörfnumst við öll matar til þess að lifa af. Ekki veit ég í hvers konar sambandi hann átti við mat. Ef til vill snérist það um að fá rétt svo nóg til að lifa af eða kannski elskaði hann stórar og miklar máltíðir og vissi ekkert betra en að vera boðin í mat. Eitt er víst; Alveg sama hvernig samband okkar er við mat og tengsl okkar líkama okkar þá er Guði ekki sama. Guð vill okkar besta og Guð veit hvernig það er að vera þú. Guð vill að þú sért stolt/ur af líkama þínum sem ber þig alla daga, hvernig sem hann lítur út. Það ert þú sem ákveður hvað er fallegt en ekki tískuframleiðendur. Á sama hátt og Jesús hvatti lærisveina sína til að koma fólkinu til hjálpar í stað þess að borða allt sjálfir, hvetur Guð okkur til þess að koma hvert öðru til hjálpar, að vera til staðar fyrir náungann.
Dýrð sé Guði sem mettar og vill að við eigum nóg af því sem við þörfnumst og fær okkur til að finna fyrir löngun til þess að koma náunganum til hjálpar.
Nýlegar athugasemdir