Skip to main content
Monthly Archives

janúar 2018

Að iðka líf

Eftir Prédikanir

 

Að sigra
Það tekur því ekki að taka þátt í íþróttum nema þú ætlir þér að vinna!

Hvað finnst þér um þessa fullyrðingu?

Ég hef aldrei haft mikinn áhuga á íþróttum og missi mig ekki yfir íþróttaleikjum þó ég sé að sjálfsögðu með “rétta” forgangsröð og gleðjist  þegar Íslandi gengur vel á stórmótum. Ég var alltaf sannfærð um að ég væri léleg í íþróttum þegar ég var barn og lagði mig því ekki eftir því að æfa neitt. Skíðin voru kannski það eina sem ég var slarkfær í en fyrst og fremst þótti mér bara svo gaman á skíðum. Það var ekki fyrr en fyrir tíu til fimmtán árum að ég fór að æfa líkamsrækt og smá saman bættust langhlaupin við.  Ég er nokkuð viss um að eitt af því sem hefur haldið mér í þessum íþróttum er að ég þarf ekki að gera annað en að iðka til þess að verða sterkari, glaðari og mögulega heilbrigðari og ég þarf ekki að vinna neinn/neina nema sjálfa mig. Reyndar finn ég að keppnismanneskjan brýst stundum fram í mér þegar ég tek þátt í hlaupaviðburðum en ég legg mig fram um að segja henni að ég þurfi ekki að vera best, að það sé bara frábært að komast í mark (á þokkalegum tíma), sem er eins gott því ég er svo langt frá því að vera best.

Þessi fullyrðing hér í upphafi er mögulega eitt af því sem stóð í vegi fyrir því að ég æfði mikið íþróttir sem barn og mögulega er svo um fleiri.

Páll og íþróttir
Páll postuli gerir íþróttir að umfjöllunarefni sínu í pistli dagsins þegar hann segir að þau sem keppa á íþróttavelli hlaupi að sönnu öll en aðeins einn keppandi fær sigurlaunin. Því eigum við öll að hlaupa þannig að við vinnum.

Úff! Það er einmitt þetta sem dregur úr því að fólk get tekið þátt í íþróttum ánægjunnar vegna. Við getum ekki öll unnið!

Reyndar kemur í ljós síðar í textanum að Páll er að nota þetta sem líkingu því hann er raunverulega að tala um trúna. Það sem hann er að segja hér er að við eigum að leggja okkur fram af öllum mætti við það að vera góðar manneskjur. Að aga okkur þannig að við gerum ekki vitleysur og mistök, að rækta trúna og rækta lífið og missa aldrei sjónar af sigurmarkinu, sem er Jesús og sem er að vera góð manneskja.

En getum við virkilega litið á trúna og lífið sem keppni? Eigum við alltaf að vera með augun á sigurmarkinu í öllu sem við gerum og sætta okkur ekki við annað en að ná markmiðinu?

 Aldrei ein
Við heyrðum áðan lagið „Aldrei einn á ferð“ eða „Never walk alone“ eins og mörg ykkar þekkja það. Já, þetta er Liverpoollagið og ég vona að ég hafi ekki stuðað einhver ykkar með því að velja þetta lag því trúið mér, ég er ekki aðdáandi neins liðs heldur valdi ég lagið eingöngu vegna þess að það er þekkt og textinn er góður. Þetta lag er líka gott dæmi um heimspeki margra íþróttafélaga. Þegar einkunnarorð/gildi og heimspeki íþróttafélaga eru skoðuð kemur nefnilega í ljós að þau snúast yfirleitt um samstöðu og samvinnu. Þau ganga að miklu leyti út á það að vera hluti af einhverju samhengi, að tilheyra. Já og að saman stefna að sigurmarkinu því öll félögin vilja jú sigra.

Fjölnislagið er ágætt dæmi um þetta því þótt það fjalli um að Fjölnir sé besta liðið (eins og svona lög gjarnan gera) þá er líka lögð áhersla á samstöðu og seiglu í textanaum.

Annað dæmi um lag sem tengist íþróttum er “Ég er komin/n heim” eða “Ferðalok” sem varð vinsælt þegar karlalið Íslands tók þátt í EM 2016 í fótbolta. Textinn fjallar ekki á nokkrun hátt um að vera best eða að vinna heldur um fallega landið okkar og um hversu gott það er að koma heim. Kannski var það þjóðarstoltið í okkur sem gerði þetta lag svo vinsælt.

Íþróttafélög hafa flest einhver gildi eða einkunnarorð að miða við í allri iðkun og fæst ganga þessi gildi út á að sigra. Dæmi um algeng gildi íslenskra íþróttafélaga eru: Virðing, heilbrigði, samkennd, gleði, ágyrgð og metnaður.

Að iðka líf
Ef að við lítum einungis á íþróttir sem keppni og teljum fráleitt að æfa íþrótt nema við ætlum okkur að vinna, þá er þessi samlíking Páls, um íþróttir og trú eða gott líf, fáránleg. Ef við aftur á móti lítum svo á að iðkun íþrótta sé góð í sjálfu sér og að markmiðin geti verið fleiri en sigur s.s. heilbrigði, vellíðan, gleði og tengsl þá er samlíkingin frábær.

Vissulega ganga margar íþróttagreinar út á það að sigra en sönn íþróttamanneskja verður líka að kunna að tapa. Ef við tökum mark á gildum íþróttafélaga og textunum í lögunum sem sungin eru á kappleikjum margra íþróttahreyfinga þá ganga íþróttir út á iðkun. Þær ganga út á gleði og tengsl, ábyrgð og virðingu svo eitthvað sé nefnt. Og í ljósi þessa er samlíkingin hans Páls býsna góð því það sem hann er að boða með þesari samlíkingu er að við leggjum okkur fram og vöndum okkur við að vera manneskjur alveg eins og við gerum þegar við stundum íþróttir.  Að við iðkum trúna og að við iðkum það að vera manneskjur. Alveg eins og að það getur verið gott að fara út að hlaupa jafnvel þegar við nennum því alls ekki eða að fara á körfuboltaæfinguna eða í karate þegar við viljum miklu heldur vera heima og slappa af eða vera í tölvuleik með vinunum þá er einnig mikilvægt að iðka trúna okkar  og það að vera góðar manneskjur, líka þegar okkur langar ekkert til þess. Við getum m.a. gert það með því að gera bænina að daglegri “rútínu” sem smá saman verður okkur eðlileg og þar með hluti af lífinu og mögulega förum við þá að finna að við erum aldrei ein. Við getum gert það með því að iðka elsku, vingjarnleika, umburðarlyndi og jákvæðni í garð annars fólks. Þannig eignumst við sáttina við okkur sjálf, Guð og lífið. Að iðka lífið og trúna og með því að setja okkur markmið sem eru raunhæf og við vitum að við ráðum við er allt það sem Guð vonast til að af okkur og hvort sem okkur tekst vel upp í iðkun eða keppni þá gengur Guð með okkur. Við göngum aldrei ein.

Amen.

Veislur, vín og mömmur

Eftir Prédikanir

Veislur
Nú þegar jólahátíðinni er nýlokið er vel við hæfi að ræða aðeins um veislur.

Hefur þú gaman að veislum? Ekki veit ég hvort þér finnist við hæfi að bjóða upp á margar sortir í veislum eins og henni Hnallþóru í bók Halldórs Laxness, Kristnihald undir jökli og býður gestum aldrei færri en 17 sortir eða hvort þú hafir kannski engan áhuga á veislum. Mögulega ert þú mest fyrir matarveislur, eða skemmtir þér best í brúðkaupsveislum. Kannski viltu frekar vera með fáum og nánum vinun og ert lítið fyrir margmenni. Kannski veistu ekkert skemmtilegra en að halda veislu og bjóða heim eða mögulega veistu ekkert verra en mannamót og kvíðir þeim mjög. Við höfum örugglega mörg hver fengið nóg af veislum og samkomum í bili, eftir jól og áramót enda er hversdagsleikinn iðulega jafn velkominn eftir hátíðarnar og hátíðir eru eftir langdreginn hversdagsleikann.

Við heyrðum áðan um veislu þar sem vínið kláraðist áður en gestirnir höfðu fengið nóg. Þetta var brúðkaupsveisla þar sem Jesús var staddur ásamt móður sinni og mögulega fleiri fjölskyldumeðlimum. Þegar vínið klárast kallar móðir Jesú á hann og biður hann að bjarga málunum. Nánar

Hingað og ekki lengra

Eftir Prédikanir

Konfektkassi
Gjörið svo vel og fáið ykkur nammi!
Fékkstu uppáhaldsmolann þinn? Eða fékkstu kannski eitthvað sem þér finnst alls ekki gott? Nú veit ég ekki í hvernig tengslum þú ert við súkkulaði en mig langar að gefa þér þennan mola og rifja upp orð Forest Gump, úr kvikmynd með sama nafni, þegar hann sagði: “Móðir mín sagði alltaf, lífið er eins og konfektkassi. Þú veist aldrei hvað þú færð”.

Hvernig konfekt-manneskja ert þú? Klárar þú t.d. alltaf efri hæðina á konfektkassanum áður en þú byrjar á þeirri neðri, eða færðu þér bara það sem þig langar í og flakkar jafnvel um á milli hæða? Byrjarðu kannski á neðri hæðinni og felur efri hæðina og borðar hana seinna? Aflarðu þér upplýsinga um innihaldið í öllum molunum áður en þú velur þér einn? Klárarðu molann þótt hann sé vondur eða hendirðu honum? Já, það eru til ýmsar leiðir til að borða konfekt þó það sé langt frá því að vera hollt þá er það svolítið hátíðlegra nammi en annað og fylgir hátíðunum hjá mörgum okkar.

En er lífið virkilega eins og konfektkassi eins og mamma hans Forest Gump sagði? Lendum við bara á einhverjum molum og þurfum að haga okkur samkvæmt þeim? Veljum við þá ekki sjálf? Nánar