Jól æskunnar
Þegar ég var að alast upp höfðu foreldrar mínir mikið fyrir því að búa fjölskyldunni allri gleðilega jólahátíð. Það var gert með þrifum og bakstri, sem var misjafnlega skemmtilegt, en það var líka gert með því að fara með okkur í leikhús og á tónleika, styðja komu jólasveinanna og með því að halda í alls kyns hefðir. Jólakortin átti að opna á aðfangadagskvöld eftir að pakkarnir höfðu verið opnaðir og þá var gott að gæða sér á jólakonfektinu sem pappi bjó til með okkur systkinunum á aðventunni.
Ég er þakklát fyrir þessar minningar því jólin í minni barnæsku snerust um fjölskylduna og upplifunin af því að jólin væru heilög var mjög sterk. Þegar ég varð fullorðin og eignaðist börn reyndi ég að skapa góðar hefðir og nýtti mér sumt úr barnæskunni um leið og við bjuggum til nýja siði.
Ég velti því oft fyrir mér þegar nær dregur jólum, hvað það er sem gerir jólin heilög. Hvað það er sem kallar fram þessa einstöku tilfinningu um að á þessari hátíð eigi allt að vera svolítið betra, fallegra og einstakara en annars?
Sænsk jól
Ég var búsett í Svíþjóð í nokkur ár og þar voru jólasiðirnir töluvert aðrir og fyrir mér voru margar venjur þar í landi langt frá því að vera til þess gerðar að skapa heilagleika. Þar hittist stórfjölskyldan gjarnan á aðfangadag eftir hádegi, horfir á Disney þætti í sjónvarpinu og heldur síðan mikla matarveislu þar sem boðið er upp á fjölbreyttan mat á hlaðborði. Maturinn samanstendur m.a. af jólaskinku, pylsum, síld ofl. Snapsar eru oftar en ekki hluti af borðhaldinu og síðan eru gjafirnar opnaðar ýmist fyrir eða eftir matinn. Oftar en ekki er það jólasveinninn sjálfur sem kemur með pakkana. Þar hringja jólin ekki inn á ákveðnum tímapunkti eins og hér á landi. Nánar
Nýlegar athugasemdir