Skip to main content
 

Áherslur í biskupskjöri

Kæra kirkjufólk

Kirkja í sókn

Ég gef kost á mér sem biskup vegna þess að ég hef óbilandi trú á Þjóðkirkjunni og á mér framtíðarsýn um kirkju sem á sér sjálfsagðan stað í samfélaginu. Kirkju sem er í sókn. Kirkju sem er virt vegna þess að hún býður upp á andlega næringu, dýpt og öruggt skjól í amstri hversdagsleikans.

Söfnuðir landsins bjóða upp á ákaflega fjölbreytt og gott starf um allt land, helgihald, athafnir á stóru stundum lífsins og ekki síst afar öflugt sálgæslustarf. Ég veit hvað allt þetta starf er dýrmætt og hvað það er unnið af mikilli fagmennsku og því vil ég styðja við allt þetta starf og hlúa að þeim sem vinna það.

Hlutverk biskups

Hlutverk biskups er að hlúa að öllu starfsfólki kirkjunnar og láta sig söfnuði landsins miklu varða. Ég legg ríka áherslu á þennan þátt og lít svo á að það sé hlutverk biskups að vera í miklum og góðum samskiptum við kirkjufólk um allt land og skapa tækifæri til samtala 

Biskup á að vera leiðtogi Þjóðkirkjunnar og sameiningartákn hennar. Ég hef reynslu af því að vinna í fjölmennum söfnuðum í tveimur löndum og reynslan hefur kennt mér að það sem virkar best er að horfast í augu og tala saman, taka á vandamálum um leið og þau koma upp og að biðja saman, og fyrir hvert öðru. 

Trúin ofar öllu

Ástæða þess að ég ákvað að gefa kost á mér til embættis biskups Íslands er fyrst og fremst sú að ég á mér einlæga trú á lifandi Guð. Ég hef trú á mátt bænarinnar og er sannfærð um að við erum öll Guði falin. Ég trúi á Guð sem er upphaf alls og krafturinn að baki öllu góðu, Guð sem er hinn æðsti og mesti kærleikur sem hver manneskja getur leitað til á persónulegan hátt.

Ég trúi á Guð sem fyrirgefur okkur af náð sinni á hverjum degi og lít á það sem hlutverk mitt að boða þennan Guð. Þá þykir mér vænt um kirkjuna mína og hef óbilandi trú á henni. Ég er sannfærð um að við getum með samstilltu átaki lyft henni hærra og gert hana sýnilegri sem sá griðastaður trúar, vonar og kærleika sem hún er. 

Helstu áherslur – Í stuttu máli

Kirkja í sókn

Ég mun vinna að því að Þjóðkirkjan taki sjálfsagt rými í samfélaginu, verði ég kjörin. Ég vil leiða kirkju sem kemur fram sem fjöldahreyfing sem er stolt af boðskap sínum og hefðum og trúir því að hún eigi erindi við samtímann.
Kirkjan þarf að hafa kjark til að taka pláss og nýta alla þá miðla sem í boði eru til þess að koma fagnaðarerindinu á framfæri. 

Grundvöllurinn

Kirkjan er ekki til í tómarúmi heldur byggir allt hennar starf á játningum Evangelískrar Lúterskrar kirkju, Heilagri ritningu og fræðum Lúthers minni. Hlutverk biskups er m.a. að sjá til þess að orðið sé prédikað hreint og ómengað og að sakramentunum sé útdeilt. Þetta er hlutverk sem ég mun taka alvarlega, verði ég kjörin.

Börnin og unga fólkið

Unga fólkið er nútíðin og framtíðin. Kirkjan verður á öllum tímum að setja málefni barna og ungs fólks í forgrunn. Það gerir kirkjan með því að leggja áherslu að söfnuðir vítt og breitt um landið hafi möguleika á að bjóða upp á barna- og æskulýðsstarf. Það gerir kirkjan með því að ungt fólk taki þátt í stefnumótun kirkjunnar og hafi rödd þegar kemur að afgerandi ákvarðanatöku. Kirkjan þarf því að leggja ríka áherslu á þátttöku ungs fólks í sóknarnefndum safnaða og á kirkjuþingi.
Verði ég kjörin biskup Íslands vil ég setja á stofn framtíðarhóp. Hópurinn verður eingöngu skipaður ungu fólki sem verður biskupi til ráðgjafar er varðar leiðir til að ná til ungs fólk.

Kærleiksþjónustan

Kirkja sem ekki setur kærleiksþjónustuna á oddinn er ekki sönn kirkja. Jesús Kristur sagði að við ættum að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf. Það er æðsta boðorð kristninnar. Djáknaþjónustan er ákaflega mikilvæg í því samhengi.
Falinn demantur í kærleiksþjónustu þjóðkirkjunnar er Skjólið, aðstaða fyrir heimilislausar konur sem opið er alla virka daga. Ég mun styðja Skjólið og kærleiksþjónustuna með öllu móti, verði ég kjörin. 

Hefðir og nýbreytni

Þegar kemur að helgihaldi legg ég áherslu á að við höldum í okkar hefðir og bjóðum upp á klassískt helgihald annars vegar og þróum helgihaldið í takt við nútímann hins vegar. Hvoru tveggja er mikilvægt. Klassíska helgihaldið er grunnurinn okkar auk þess sem það tengir okkar við kristnar kirkjur víðast hvar í heiminum. Nýbreytni helgihaldi er þróun sem verður að eiga sér stað svo að endurnýjun verði í kirkjunni.
Hið heilaga er að finna jafnt í hefðbundnu helgihaldi og í því sem hefur þróast í takt við þarfir samtímans. Í öllu helgihaldi verðum við að gæta að því að við tölum tungumál sem allt fólk skilur og tölum ekki mál sem útilokar.

Biskup sem tekur afstöðu

Í mínum huga á kirkjan ávallt að taka afstöðu með þeim sem minna mega sín í samfélaginu, hún á að vera vörður mannréttinda og réttlætis og þarf að gera það með sýnilegum hætti. Biskup þarf samt sem áður að gæta þess að virða ólík sjónarmið innan kristinnar kirkju og þrátt fyrir að biskup eigi að taka þátt í samfélagsumræðu þarf að vera skýrt að í einstökum álitamálum talar biskup aðeins fyrir sína persónulegu skoðun. Biskup getur aftur á móti boðið upp á umræðuvettvang meðal kirkjunnar fólks um erfið álitamál og á að vera leiðandi og styðjandi í slíkri umræðu. 

Kirkjan sem öruggur staður

Ég mun halda áfram þeirri vinnu sem núverandi biskup hefur staðið fyrir með það að markmiði að gera kirkjuna að öruggum stað fyrir starfsfólk kirkjunnar og þau er sækja þjónustu hennar. Ég mun halda áfram að vinna í góðri samvinnu við teymið og styðja vinnu kirkjuþings við þróun starfsreglna er varða ofbeldismál í kirkjunni.
Þá mun ég leggja ríka áherslu á að kirkjan sé góður og eftirsóttur vinnustaður, þar sem starfsfólki líður vel og finnur að það er metið að verðleikum.

Fjárhagsstaða kirkjunnar

Fjárhagsstaða safnaða er víða þröng og þá ekki síst í minni söfnuðum. Kirkjan verður að horfa til framtíðar er varðar fjárhagslegan grundvöll bæði hvað varðar viðbótarsamninginn og sóknargjöldin. Það gerir hún með því að kalla eftir því að ríkið standi skil á sóknargjöldunum að fullu og að þau verði fest í sessi.
Ég tel einnig að nýjar leiðir til lausna sé að finna í samtali og samvinnu við heimafólk í héraði sem þekkir þarfirnar best. Á ferðum mínum um landið í aðdraganda biskupskjörs hafa komið fram margar góðar hugmyndir varðandi þetta sem ég mun skoða alvarlega verði ég kjörin biskup.

Áhersla á fjölgun sóknarbarna

Ég trúi því að við getum fjölgað meðlimum Þjóðkirkjunnar þrátt fyrir að fækkun meðlima eigi sér um margt eðlilegar skýringar vegna breyttrar samfélagsgerðar. Verði ég kjörin mun ég vinna að því að farið verði þjóðkirkjuátak með sóknarnefndum um allt land í að fjölga sóknarbörnum.
Þarna eru fjölmargar leiðir færar. Ein slík er að vinna að því að skírnin verði sjálfkrafa skráning í Þjóðkirkjuna. Þá hef ég trú á því að fleiri skapandi leiðir komi fram þegar fólk fer að tala saman og leyfa huganum að flæða út fyrir hina hefðbundnu ramma.

Kristinfræðin og Biblíusögurnar

Sífellt minni þekking barna á Biblíusögum og grundvallaratriðum kristindómsins er áhyggjuefni sem kirkjan verður að taka föstum tökum. Verði ég kjörin mun ég vinna að því að auka þekkingu barna á Biblíusögum með ýmsum leiðum s.s. með því að sjá til þess að unnið verði fræðsluefni fyrir ákveðna árganga fyrir söfnuði landsins svo hægt sé að bjóða heilu árgöngunum upp á fræðsluheimsókn í kirkjuna sína. 

Færanleg skrifstofa

Biskup á ekki að vera fulltrúi ákveðins landshluta eða svæða. Biskup á að vera leiðtogi þjóðkirkjunnar allrar, um allt land og verður því að hafa góða yfirsýn yfir þjónustuna alla. Verði ég kjörin mun ég vinna að því að skrifstofa biskups verði færanleg að nokkru leyti. Þ.e.a.s. að biskup verði með skrifstofu í öllum landshlutum eina viku á ári þrátt fyrir að höfuðskrifstofan sé í Reykjavík. Ef til vill væri hægt að fá inn í safnaðarheimilum vítt og breitt um landið.
Með þessum hætti er hægt að stytta boðleiðirnar á milli kirkjufólks og biskups Íslands, auk þess sem biskup myndi nærast af fjölbreyttu kirkjustarfi hér og þar um landið.
Ég vil með öðrum orðum færa biskupsembættið nær fólki um allt land.

Samvinna og samstarf ofar öllu

Í þjónustu minni sem prestur hefur það nýst mér best að leggja áherslu á samstarf, samvinnu og samtal. Þetta verður mín áhersla bæði hvað varðar samstarfólk, vígða þjóna kirkjunnar, sóknarnefndarfólk, kirkjuþing og kirkjufólk almennt verði ég kjörin. Skipurit Þjóðkirkjunnar er skýrt og ég tel að það verði gott að vinna eftir því.

Íslenska kirkjan er ekki ein í heiminum

Þjóðkirkjan er ekki ein í heiminum og ákaflega mikilvægt að vera í góðu sambandi við systurkirkjur okkar annars staðar í heiminum. Ég mun halda áfram að efla tengsl Þjóðkirkjunnar við þær kirkjur, trúfélög og samtök sem hún er aðili að vítt og breitt um heiminn. Þjóðkirkjan er hluti af Lúterska heimssambandinu, biskupasamfélagi norðurlanda, Porvoo samþykktinni og fleiru. Allt þetta samstarf er gríðarlega mikilvægt fyrir okkar litla land og því verður biskup að vera tilbúin/n til samstarfs og mikilvægt að biskup geti tjáð sig á einu norðurlandamáli auk ensku.

Kynningarfundir

Kynningarfundur Vesturlandsprófastsdæmi 9. apríl 2024

Hér eru samantekin svör Guðrúnar við spurningum úr sal á Kynningarfundi í Eyjafjarðar og Þingeyjarprófastsdæmi þann 2. apríl 2024

Greinar

Vigfús Þór Árnason – fyrrverandi sóknarprestur í Grafarvogskirkju

Guðrún Guðlaugsdóttir – blaðamaður og rithöfundur

Anna Guðrún Sigurvinsdóttir – Formaður sóknarnefndar í Grafarvogssókn

Nýjustu pistlar

Pistlar

Biskup í tengslum

Eitt af því besta við að vera í biskupskjöri er að kynnast kirkjufólki vítt og…
Pistlar

Kirkjan er engin hornkerling – Hlutverk biskups í samtímanum

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2024 Nýr biskup Nú stendur fyrir dyrum að…
Pistlar

Ofurkonan

(Úr bókinni minni, Í augnhæð, Hversdagshugleiðingar sem kom úr í nóvember 2020) Vika 12. Ofurkonan…
Allir pistlar