Skip to main content

Mannætan, trúboðinn og himnaríkin

Eftir nóvember 25, 2018Prédikanir

Mannætan og himnaríki
Í einni af bókum Astrid Lindgren um Maddid fara börnin í sögunni að tala um himnaríki. Þetta hefst allt með því að Maddid fer að útskýra fyrir hinum hvernig hljóðlát mannæta hreyfir sig. Hún lýsir því með ríku myndmáli hvernig mannætan læðist aftan að trúboðanum, ræðst á hann og borðar hann.

Beta systir hennar fær hroll því það er ljótt að gera svona lagað. Aumingja trúboðinn hefur ekki gert neitt af sér.  Hún segir að mannætan muni aldrei komast til himna ef hún hagar sér með þessu móti. Maddid er sammála því að mannætan komist ekki til himna. En svo fer Beta að hugsa málið betur og kemst að þeirri niðurstöðu að mannætan komist víst til himna. Hún kemst til himna vegna þess að hún er með trúboðann í maganum og trúboðinn verður að komast til himna.

Þetta eru frábærar hugleiðingar um himnaríki hjá Astrid Lindgren. Hún bendir okkur þarna á að þetta er ekki svo einfalt með himnaríki og helvíti. Það er ekki svo einfalt að velja hin réttlátu frá þeim ranglátu, að skipta fólki í hin góðu og hin vondu. Í sögunni fæst sú niðurstaða að jafnvel hin ranglátu, þau sem gera vonda hluti, eins og að borða fólk, komist til himnaríkis. Það gerist reynar með hjálp hinna réttlátu.

Boðskapurinn um himnaríki og helvíti hefur alltaf verið okkur kristnu fólki hugleikinn að einhverju marki. Í Biblíunni er talað um himnaríki eða Guðs ríki og helvíti, eða eilífan eld eftir þetta líf. Þar er talað um himnaríki mitt á meðal okkar og það einnig hægt að skilja það sem himnaríki innra með okkur.

Hvað af þessu er nú rétt? Er þetta kannski allt rétt? Getur þetta bæði snúist um innri líðan, stöðu okkar og líðan í þessu lífi og eftir þetta líf?

Þessar hugmyndir um góðan stað og vondan eftir þetta líf hafa löngum verið notaðar til þess að hræða fólk enda er ekkert stjórntæki öflugra en óttinn. Við þekkjum það þegar hreinsunareldurinn og himnaríki urðu verslunarvara Kaþólsku kirkjunnar sem græddi á tá og fingri á ótta fólks. Söfnuðir um allan heim hafa fyllst af fólki í gegnum tíðina vegna hræðsluboðskaps um ríka refsingu eftir þetta líf ef þú ert ekki frelsuð/frelsaður á réttan hátt, trúir á réttan hátt og breytir nákvæmlega rétt.

Þrír möguleikar
Ef við skoðum þessa þrjá möguleika aðeins betur þá getur himnaríki og helvíti í fyrsta lagi verið innra með okkur. Það held ég að sé nokkuð góð lýsing á ástandi okkar og líðan oft á tíðum. Þegar manneskja upplifir mikinn kvíða, angist, þunglyndi, sektarkennd, reiði, vanmátt og svo margt fleira þá getur sú líðan sannarlega orðið algjört helvíti. Þessi líðan getur orðið svo mikið helvíti að hún verður lífshættuleg.

Á sama hátt getum við upplifað eitthvað sem líkist himnaríki þegar við erum í fullkomnu jafnvægi, finnum til innri friðar, mögulega þegar allt gengur upp, já og kannski þegar við verðum ástfangin eða þegar við elskum. Þessi tilfinning getur kannski orðið sem sterkust þegar fólk upplifir óeigingjarna ást til annarar manneskju. Til dæmis við fæðingu barns þegar ekkert fer úrskeiðis.

Himnaríki og helvíti mitt á meðal okkar getur svo sannarlega verið til og það tenigist himnaríki og helvíti innra með okkur órofa börndum. Ég held að fæst okkar fari í gegnum lífið án þessa að finna sig í kringumstæðum sem geta minnt á helvíti og öðrum sem geta minnt á himnaríki. Himnaríki hljóta þá að vera þær aðstæður þegar við upplifum heiminn réttlátan og góðan. Þegar við fyllumst von yfir því að heimurinn sé kannski bara í fínu lagi, svona að mestu leyti. Mögulega getum við upplifað þetta þegar allt gengur vel í fjölskyldunni okkar, á vinnustaðnum og meðal vina. Þegar samfélagið sem við búum í virðist réttlátt og friðsælt og heimurinn almennt góður. Vonandi upplifum við flest þetta einhvern tíma á ævinni.

Að upplifa eitthvað sem líkist helvíti mitt á meðal okkar er því miður eitthvað sem stór hluti fólks upplifir einhvern tíma. Það að lenda í þeim kringumstæðum að vera úthrópuð í fjölmiðlum og í netheimum hlýtur að vera upplifun sem líkist því að vera í helvíti. Að vera berskjölduð, hengd út til sýnis með öllum okkar breiskleikum hlýtur að vera skelfilegt. Þetta eru aðstæður sem verða sífellt algengari nú þegar fjölmiðar keppast við að búa til einhliða fréttir úr  stöðufærslum einstaklinga af facebook og á meðan kommentakerfin eru með opið veiðileyfi á fólk. Það er svo auðvelt að missa tökin á þessum aðstæðum. Dæmi um helvíti á jörðu getur kannski verið þegar okkur verða á afgerandi mistök sem verða öllum opinber og þegar vondir hlutir gerast í lífi okkar, þegar við verðum fyrir miklum áföllum og ótímabærum missi. Það getur verið þegar við erum höfð fyrir rangri sök.

Og svo er það hugmyndin um himnaríkið og helvítið sem stað að loknu þessu lífi og um er rætt í guðspjalli dagsins. Þar er kynnt sú hugmynd að okkar bíði dómur að loknu þessu lífi, eða þegar Jesús kemur aftur með einhverjum hætti, þar sem okkur verður skipt í hafra og sauði. Réttlátt og ranglátt fólk. Þar sem réttláta fólkið fer til himnaríkis og hin ranglátu munu dæmast til eilífrar refsingar í eilífum eldi djöfulsins og árum hans.

Geta þessar þrjár hugmyndir allar verið sannar með einhverjum hætti eða ætli ein þeirra sé sannari en önnur? Getum við kannski bara valið hverja okkur líkar best við?

Ég trúi
Ég vil fyrst og fremst taka til greina það sem Jesús sjálfur á að hafa sagt um himnaríki og það er ekki beinlínis hægt að segja að hann sé neitt sérstaklega skýr um þetta málefni.

Ég trúi því að til sé bæði himnaríki og helvíti en ég trúi ekki að þetta séu staðir sem við förum á eftir þetta líf. Að hin góðu fari til himnaríkis eins og sauðirnir til hægri og hin vondu fari til helvítis eins og hafrarnir til vinstri.

Ég trúi ekki á Guð sem sendir okkur til helvítis því ef Guð er kærleikur, meiri kærleikur en við getum með nokkru móti gert okkur í hugarlund, þá getur þessi kærleikur ekki verið eitthvað sem vill okkur illt.

Getur verið að þessi guðspjallstexti lýsi miklu fremur lífi okkar og aðstæðum hér og nú, á þessari jörðu en einhverju sem tekur við að þessu lífi loknu. Getur verið að hér sé fremur verið að lýsa dómi okkar mannfólksins yfir hverju öðru en dómi Guðs yfir okkur?

Ég held það. Við erum þau sem skiptum fólki í gott og vont, réttlátt og ranglátt. Við refsum hvert öðru og oft af miklum ofsa og litlu tilefni. Já, lífið sem manneskja hér á jörðu getur sannarlega bæði verið himnaríki og helvíti.

Það er þó ljóst að til okkar eru gerðar kröfur og þessar kröfur eru mjög skýrar. Það leikur enginn vafi á því hvernig Guð vill að við séum. Jesús kom í heiminn til þess að birta okkur þennan vilja Guðs. Guð vill að við séum almennilegar manneskjur. Að við komum fram við hvert annað af góðvild og gæsku. Að við reynum að bæta stöðu fátækra, leggjum okkar að mörkum til að gera heiminn friðsælli og réttlátari. Að við gerum allt það sem í okkar valdi stendur til að koma á himnaríki á jörðu.

Þetta himnaríki er líf í góðum tengslum við fólk. Líf  þar sem við skiptum fólki ekki í flokka. Líf þar sem við getum gert ráð fyrir hjálp frá náunganum og þar sem við erum tilbúin að rétta öllum hjálparhönd, án fordóma. Líf þar sem allt fólk getur lifað með reisn. Já og líf þar sem mannætur fyrirfinnast helst ekki og þar sem trúboðar fara varlega.

Hlutverk okkar í þessu eru ólík því hæfileikar okkar og aðstæður eru misjafnar. Engin manneskja þarf að gera allt þetta ein. En það sem við getum öll gert, hvert og eitt, er að sýna náunganum þann kærleika og virðingu sem við viljum að okkur sé sýnd og komið fram af góðvild. Þannig getum við lagt svolítið af mörkum til þess að koma á guðsríki hér á jörðu. Kraftinn og viljann til þess að framkvæma þetta veitir Guð okkur. Allt sem við þurfum að gera er að sækja hann í óendanlegan kærleika Guðs og það getum við gert með þvi að iðka trú okkar, með bæn og íhugun, með því að sækja í samfélag trúaðra og fá uppörvun.
Amen.

Guðspjall: Matt 25.31-46
Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.
Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.
Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín.
Þá munu þeir svara: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér. Og þeir munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs.“