Skip to main content

Nusrat, bruninn og upprisa jarðar

Eftir apríl 21, 2019Prédikanir

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á páskadagsmorgun 2019

Nusrat
Á þessum páskadagsmorgni langar mig að segja ykkur frá Nusrat Jahan Rafi, 19 ára stúlku frá Bangladesh. Nusrat varð fyrir kynferðislegri áreitni af hendi skólastjóra. Hún var múslimi, fjölskyldan hennar var íhaldssöm og hún var nemandi í ströngum og íhaldssömum skóla. Það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir stúlku í hennar stöðu í Bangladesh að segja frá kynferðislegri áreitni. En þolendur kynferðislegrar áreitni eru gjarnan dæmdir af samfélaginu og fjölskyldunni og verða fyrir árásum, bæði á samfélagsmiðlum en einnig verða þau fyrir líkamlegu ofbeldi. Nusrat sagði ekki aðeins frá áreitninni heldur fór hún, með stuðningi fjölskyldu sinnar, til lögreglunnar og kærði skólastjórann og hún varð fyrir öllu ofantöldu.

Þegar hún fór og kærði var þar viðstaddur lögreglumaður sem tók upp allt sem hún sagði og deildi því síðan á samfélagsmiðlum. 27. mars síðastliðinn, eftir að hún hafði lagt fram kæru og skólastjórinn var handtekinn. Eftir það versnaði staða Nusrat enn frekar. Fólk mótmælti og hún varð fyrir stöðugu áreiti. 6. apríl síðastliðinn fór hún í skólann til þess að taka lokaprófin. Bróðir hennar fylgdi henni en hann réð ekki við neitt. Henni var ekki hleypt inn í skólann til þess að taka prófin heldur var farið með hana upp á þak þar sem var kveikt í henni. Hún lést ekki samstundis en hún hlaut alvarleg brunasár á 80% líkamans. Hún var þó með meðvitund nógu lengi til þess að geta borið kennsl á nokkra af árásarmönnunum. Hún lést 10. spríl síðastliðinn af sárum sínum.

Mörg þúsund manns komu í jarðarförina hennar Nusrat og lögreglan hefur nú handtekið 15 manneskjur sem eru grunaðar um að hafa tekið þátt í að taka hana af lífi. Lögreglumaðurinn sem tók upp myndbandið af henni og dreifði á samfélagsmiðlum hefur verið færður til í starfi (hvað sem það þýðir) og forætisráðherra landsins hefur hitt fjölskylduna hennar og heitið þeim að hverjum þeim sem tóku þátt í þessu verði refsað.

Það sem þó skiptir mestu máli er að nú er fólk farið að mótmæla harðlega hvernig komið er fram við konur í landinu og réttindabarátta kvenna er komin á dagskrá.

En fyrst þurfti Nusrat að deyja!

Saga Nusrat er saga margra kvenna og hún er líka saga margs fólk sem hefur þurft að deyja fyrir málstað sinn.

Getur verið að til þess að upprisa geti orðið þurfi fyrst eitthvað eða einhver að deyja?

Það er oft eins og við getum ekki risið almennilega upp fyrr en eyðileggingin er orðin algjör og við höfum þegar reynt hversu langt við getum gengið í því að skemma og eyðileggja og drepa, oft með hirðuleysi og áhugaleysi.

Notre Dame
Dæmi um þetta sáum við þegar Notre Dame varð eldi að bráð í vikunni sem leið. Það gerðist eitthvað stórbrotið með þessum bruna. Frakkar, Evrópa og fjöldi landa heimsins vöknuðu upp og virtust átta sig á hvað þessi kirkja, sem byrjað var að reisa þegar á 12. öld, var mikilvæg. Henni hefur verið lýst sem hjarta Parísar, Frakklands og Evrópu allrar enda var ekki aðeins byggingin einstök heldur varðveitti hún ómetanlega listmuni og sögulega gripi og hún var hús tilbeiðslu og andlegrar næringar. Sem betur fer tókst að bjarga stærstum hluta verðmæta kirkjunnar og hún stendur enn, þrátt fyrir að stór hluti hennar sé horfinn.

Við atburði sem þessa er eðlilegt að við leitum að táknum. Þegar þessi merka dómkirkja Parísar brann var af nógu að taka. Helsta bænhús kristinnnar í Frakklandi brennur í upphafi kyrruviku, eyðileggingin er mikil en þó stendur byggingin enn uppi, krossinn og altarið standa óhreifð eftir hamfarirnar. Það er ekki óeðliegt að kristið fólk og þau sem eru trúuð eða hafa áhuga á andlegum málum yfirleitt velti þessum táknum fyrir sér.

Það leið ekki langur tími frá því alvarleiki brunans varð ljós þar til forseti Frakklands hafði heitið Frökkum, og heimsbyggðinni allri, að kirkjan yrði endurreist. Hann vildi hugga.

Það leið heldur ekki á löngu áður en ríkasta fólk Frakklands hafði heitið mörg hundruðum milljónun evra til uppbyggingar á kirkjunni. Og peningarnir héldu áfram að streyma inn. Nú hefur frakklandsforseti lofað því að þessi 850 ára gamla kirkja verði endurbyggð á fimm árum og að hún verði enn fegurri en áður.

Þurfti Notre Dame að brenna til þess að fólk uppgötvaði hversu miklu máli hún skipti? Þurfti kirkja að brenna til þess að fólk finndi að það þyrfti á þessu tilbeiðsluskjóli að halda?

Jörðin
Í vikunni mátti sjá fyrirsögn í fjölmiðlum um að Greta hafi barist við grátinn. Hér var að sjálfsögðu átt við Gretu Thunberg frá Svíþjóð en hún hefur að undanförnu farið fyrir baráttu ungs fólks fyrir umhverfismálum. Reyndar er það einfaldlega þannig að Greta, sem er aðeins sextán ára gömul, er nú fyrirmynd og leiðtogi bæði ungs fólks og okkar sem eldri erum í baráttunni fyrir jörðinni okkar. Þessi unga kona hefur fengið fólk um allan heim til þess að snúa við blaðinu og láta sig umhverfismálin varða enda kemur hún vel til skila þeim skilaboðum að hér er um að ræða baráttu upp á líf og dauða, að ef við gerum ekki eitthvað sem skiptir sköpum núna, þá munu afkomendur okkar ekki lifa af. Þessi fyrirsögn um að Gréta hafi barist við grátinn var hálf undarleg því það sem skipti máli í þessari frétt var það sem Gréta sagði en ekki það að hún hafi verið við það að beygja af.

Í fréttinni bar Gréta elds­voðann í Notre Dame-dóm­kirkj­unni sam­an við neyðarástandið í lofts­lags­mál­um. Hún sagði um­heim­inn hafa horft skelf­ingu lost­inn á það þegar kirkj­an brann og að það væri skilj­an­legt því sum­ar bygg­ing­ar væru meira en bara bygg­ing­ar. En Notre Dame verður end­ur­byggð og vonandi eru stoðir henn­ar sterk­ar. Og hún sagðist vona að stoðir jarðarinnar okk­ar væru jafn­vel enn sterk­ari, en að hún óttaðist að þær væru það ekki.

Greta er ekkert of bjartsýn á framtíð jarðarinnar enda hefur komið í ljós að samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið á vegum Sameinuðu þjóðanna að teg­und­ir dýra séu að deyja út hraðar en áður var talið, að mik­il jarðvegs- og skógareyðing eigi sér stað auk loft­meng­unnar og súrn­un hafs­ins. Já, og það er nóg að horfa á þættina „Hvað gerum við“ sem hafa verið sýndir á RUV að undanförnu til þess að átta sig á að við stöndum frammi fyrir alvarlegum vanda sem okkur ber að taka alvarlega.

Getur verið að við þurfum að eyða jörðinni okkar nær algjörlega til þess að við áttum okkur og reisum hana við á ný?

Jesús
Þegar Jesús var ofsóttur og síðar krossfestur, var illskan, óttinn og reiðin við völd. En eitt af því sem er mikilvægt að við áttum okkur á þegar kemur að ofbeldinu og ofsóknunum gegn Jesú er að hann varð aldrei fórnarlamb því hann var ekki „passívur“. Hann sagði lítið og hann mótmælti aldrei með látum, en hann mótmælti.. Hann hnikaði aldrei frá því sem var satt og rétt, sama hvernig komið var fram við hann. Hann var hinn sanni friðsami mótmælandi.

En mótmæli hans fóru á þann veg að valdhafarnir þoldu þetta ekki og gengu alla leið. Hann var ógn við valdaöflin vegna þess að hann hlýddi þeim ekki.

Upprisa Jesú átti sér stað á tveimur sviðum. Annarsvegar hin jarðneska upprisa sem fólst í því að hann sigraði með því að gefa sig aldrei, með því að falla aldrei í þá freistni að þóknast valdhöfnum heldur halda sig við sannleikann. Og þannig má segja að valdaöflin hafi tapað því þau leystu ekkert með krossfestingunni annað en að þau urðu álitin níðingar sem réðust á, og tóku lífið af friðsamri og valdalausri manneskju. Hins vegar höfum við upprisuna sem við kristið fólk trúum að hafi breytt öllu. Upprisuna þar sem Guð sigraði dauðann.

Eyðilegging og upprisa
Hörmulegt morð á konu í Bangladesh þurti til þess að vekja fólk til meðvitundar um stöðu kenna og kynferðisofbeldi þar í landi og það á við um fjölda annarra landa og samfélaga.

Bruna Notre Dame þurfti til þess að fólk skildi hversu miklu máli þessi kirkja skipti fyrir trúarlíf, menningu og sögu Frakklands og jafnvel Evrópu allrar.

Þurfum við að eyða jörðinni okkar nær algjörlega til þess að skilja að hún er lífæðin okkar, til þess að skilja að ef við eyðum jörðinni alveg þá þurrkum við út lífsmöguleika okkar um leið?

Kannski þurfti að taka Jesú af lífi til þess að upprisan gæti orðið. Kannski var grimmdin og ömurleikinn forsenda upprisunnar.

Getur verið að við verðum að sjá algjöra eyðileggingu, kanna hversu langt við getum gengið til þess að sjá að okkur og rísa upp?  

Oft er það þannig að sumir hlutir þurfa að deyja til þess að eitthvað nýtt geti vaxið, til þess að breytingar geti átt sér stað. Kannski þarf gömul kirkja að brenna til þess að ný lifandi kirkja geti vaxið. En við eigum ekki að þurfa að eyða lífi til þess að hugarfarsbreyting geti orðið og við eigum ekki að þurfa að eyða jörðinni okkar til þess að við skiljum hversu mikilvæg hún er.

Á páskadegi fögnum við af öllu hjarta, því lífið sigraði dauðann. Kærleikurinn sigraði illskuna. Guð hefur gefið okkur von um að við getum risið upp á öllum sviðum. Þessi trú ætti að vera okkar mesti hvati til þess að taka höndum saman og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hlúa að jörðinni okkar, lífæðinni og öllu þvi sem á henni lifir.

Við megum ekki láta eyðileggingu og vanrækslu ganga það langt að upprisa jarðar og þar með alls lífs á jörðu komi oft seint.

Dýrð sé Guði sem sigraði dauðann og getur hjálpað okkur að rísa upp án þess að þurfa að eyðileggja allt fyrst.
Amen.