Skip to main content

Heilsa, góðverk og áföll – Prédikun í Grafarvogskirkju 29. júlí 2018

Eftir júlí 30, 2018Prédikanir

Heilsa, góðverk og áföll

Fyrir nokkrum dögum rakst ég á nokkuð sem kallast jafnvægispróf Heilsufélagsins. Þessu prófi eða könnun er ætlað að meta andlegt og líkamlegt jafnvægi fólks. Ég tók þetta próf og það vakti athygli mína að ein spurningin var um það hvort og hversu reglulega ég gerði góðverk.

Þarna var það að gera góðverk metið sem jákvæður þáttur í andlegu og líkamlegu jafnvægi fólks. Þetta ætti reyndar ekki að koma á óvart því rannsóknir hafa sýnt að, það að gera góðverk geti aukið lífshamingju fólks.

Fyrir nokkrum mánuðum síðan tók ég þátt í rannsókn, sem verið  er að vinna, á áfallasögu kvenna. Þessi rannsókn er unnin á vegum Háskóla Íslandsog rannsóknarefnið er hvaða áhrif áföll hafa á heilsufar kvenna en öllum konum á Íslandi er boðið að taka þátt. Rannsóknin stendur enn yfir en ég var á fyrirlestri um daginn hjá dr. Unni Önnu Valdimarsdóttur, prófessori í læknadeild HÍ og þar kom fram að allt bendi til þess að áföll hafi ekki aðeins áhrif á heilsu kvennana sjálfra heldur einnig á komandi kynslóðir. Þannig geta áföll haft áhrif á meðgöngu fæðingaþyngd, fyrirburafæðingar o.fl.. Þetta gæti jafnvel þýtt að áföll kvenna geti haft áhrif á nokkrar kynslóðir. Sjálfsagt gildir eitthvað svipað um karla, því það er hægt að hafa áhrif á komandi kynslóðir með öðrum hætti en á meðgöngu og í fæðingu, og mögulega verður það einhvern tíma rannsakað.

Með sama hætti verður að teljast líklegt að ef það að gera góðverk geta aukið lífshamingju og bætt heilsu okkar þá geti það einnig haft áhrif á lífshamingju komandi kynslóða.

Að elska
Ég las áðan guðspjallið um hið tvöfalda kærleiksboðorð. Reyndar ætti þetta að kallast hið þrefalda kærleiksboðorð því það fjallar um að elska Guð, elska náungann og að elska okkur sjálf.

Er í alvörunni hægt að ELSKA Guð? Er ekki nóg að trúa?
Er virkilega hægt að ELSKA náungann?  Hvað með allt fólkið sem er óþolandi? Fólkið sem er vont við okkur?
Já og er hægt að ELSKA sjálfa/n sig? Verðum við þá ekki bara óþolandi sjálfhverf og leiðinleg?

Ég held að það sem Jesús er að tala um hér sé ekki ást sem tilfinning eins og við finnum þegar við elskum t.d. maka okkar, kærasta eða kærustu. Ég held að hann sé ekki að meina þessa tilfinningu sem við finnum gagnvart börnum okkar, foreldrum, systkinum eða vinum.
Ég held að Jesús sé að meina eitthvað annað!

Jesús er náttúrulega einstaklega snjall í að útskýra mál sitt og þegar hann útskýrir hvað hann á við með þessu tvöfalda eða þrefalda kærleiksboði þá notar hann dæmisöguna um miskunnsama samverjann.
Hann notar dæmisögu um mann sem gerir góðverk.

Ef einhver hefði átt að ganga framhjá manninum sem lenti þarna í klóm rængingja þá ætti það að vera Samverjinn. Þessi maður átti ekkert inni hjá Samverjanum því hann tileyrði þjóðfélagshópi sem leit niður á Samverjann og útskúfaði fólk hans. Þetta voru að öllum líkindum ómerkilegir innflytjendur í hans augum. En hann hjálpar manninum samt og sér til þess að hann fái áframhaldandi hjálp. Þetta er eins raunverulegt góðverk og þau geta nokkurn tíma orðið.

Ég held að góðverkið sé einmitt lykillinn að tvöfalda/þrefalda kærleiksboðorðinu. Góðverkið sem snýst um að sýna öllu fólki góðvild og vingjarnleika, alveg sama um hvaða fólk er að ræða og í hvaða aðstæðum. Þetta snýst ekki um tilfinningar og hvernig okkur líður hverju sinni gagnvart einhverju fólki heldur snýst þetta um ákvörðun og lífsviðhorf. Þetta snýst um að taka þá ákvörðun að sýna öllu fólki góðvild og virðingu, sama hvernig okkur kann að líka við það persónulega. Að vera jákvæð og opin gagnvart öðru fólki og ganga út frá því að það sé gott. Með þessu viðhorfi sýnum við bæði Guði og náunganum elsku. Guð vill nefnilega fyrst og fremst vera hluti af lífi okkar og að við virðum allt líf og þar með okkur sjálf.

Það er þó þetta með að elska og virða okkur sjálf sem getur verið flóknast. En það skiptir svo óendanlega miklu máli hvernig okkur líkar við okkur sjálf, að við sýnum okkur sjálfum góðvild, væntumþykju og virðingu. Að við vinnum góðverk gagnvart okkur sjálfum líka. Að við látum okkur þykja jafnvænt um okkur sjálf og vini okkar.

Heilsa okkar er í húfi
Áföll geta m.a. orðið til þess að við elskum okkur sjálf, náungann og Guð minna en við hefðum annars gert. Og það er eitthvað sem við getum borið áfram til komandi kynslóða. En ekkert okkar kemst hjá því að verða fyrir áföllum. Því er svo mikilvægt að unnið sé úr áföllum með besta móti og að vinnum að því að eignast andlegt og líkamlegt jafnvægi. Og einn liður í því getur verið að gera góðverk. Að sýna öðru fólki og okkur sjálfum góðvild. Og ef við hleypum Guði inni í líf okkar, nýtum okkur kraft bænarinnar og hlustum á klók orð Jesú frá Nasaret þá er möguleiki á að okkur veitist þetta auðveldar.

Ég vil hvetja okkur öll til þess að reyna þetta, að ákveða að sýna öðru fólki og okkur sjálfum góðvild og gera reglulega góðverk. Heilsa og lífshamingja okkar og afkomenda okkar er húfi!
Amen.