Prédikun flutt í Grafarvogskirkju 14. janúar 2023
2. Mosebók 3: 1-15
Í þjóðgarði í norðurhluta Ástralíu stendur Fjallið Uluru, einnig þekkt sem Ayers Rock. Þetta er rauðleitur klettur sem myndast hefur úr sandsteini. Fjall þetta eða klettur er einn helgasti staður frumbyggjaættbálks sem trúir því að fjallið hafi verið búið til af forfeðrum þeirra, anda fólkinu, fyrir um 600 milljónum ára. Þau trúa því að þau komist í samband við forfeður sína og formæður með því að snerta fjallið og því er fjallið heilagt í augum þeirra. Uluru hefur lengi verið vinsælt meðal ferðafólks sem hefur gaman af að ganga upp á þetta merkilega fjall en í október 2019 var tekin sú ákvörðun að banna alla umferð á fjallið af virðingu við frumbyggjana. Með því lauk langri baráttu ættflokksins gegn ágangi ferðafólks á þennan helga stað.
Það sem er heilagt fyrir þeim er ekki heilagt fyrir öðrum en að lokum var ákveðið að virða það sem þeim var heilagt.
Í trúarbrögðum er ýmislegt heilagt. Það geta verið staðir fólk og dýr, mismunandi eftir trúarbrögðum. Fólk þarf þó ekki að játa ákveðna trú til þess að upplifa eða álíta eitthvað vera heilagt.
Í kristni er mikið talað um að eitthvað sé heilagt. Við tölum um heilög jól, heilaga kirkju og við tölum jafnvel um að við, mannfólkið séum heilög sköpun Guðs. Við iðkum það oftar en ekki að helga hluti, staði og fólk í þeim tilgangi að afmarka og skilgreina hlutverk þeirra eða verkefni. Kirkjur eru blessaðar áður en þær eru teknar í notkun. Orgelið hér í kirkjunni var vígt áður en það var tekið í notkun. Fólk er vígt sem djáknar, prestar og biskupar og börn eru skírð, sem einnig er ákveðin vígsla.
Áðan var lesið úr annarri Mósebók sagan um það þegar Móses sér brennandi runna í eyðimörkinni eða runninn stóð í ljósum logum en hann brann ekki. Í loganum miðjum sá hann engil. Hann varð forvitinn og gekk nær til þess að virða þetta fyrirbæri fyrir sér. Hann undraðist hvers vegna runninn brann ekki. En þegar hann kemur nær hrópar Guð nafn hans og þegar Móses svarar segir Guð að hann megi ekki koma nær og biður hann að fara úr skónum vegna þess að hann sé staddur á heilagri jörð. Síðan segir Guð Móses að hann/hún/það sé Guð. Eftir það snýst þessi frásögn um það að Móses er kallaður til ákveðins hlutverks.
Biblían er full af táknum og það er svo ótal mörg tákn í þessari frásögn. T.d. er ekki óalgengt að Guð birtist í eldi, sérstaklega í Gamlatestamentinu. Eldur getur bæði verið góður og ógnvænlegur í senn. Eldur getur lýst okkur leiðina og hlýjað okkur en eldur getur líka brennt skóginn og við getum brennt okkur á honum ef við förum of nálægt.
Annað mikilvægt tákn er er engillinn í runnanum en engill merkir boðbera Guðs, að hér séu á ferðinni skilaboð frá Guði.
Enn eitt mikilvægt tákn er heilaga jörðin og að Guð biður Móses að fara úr skónum þegar hann gengur inn á hana.
Það að eitthvað sé heilagt merkir að það sé frátekið. Heilög kirkja er frátekin til ákveðins hlutverks og manneskjan, samkvæmt kristinni trú, er frátekin til þess að tilheyra almættinu sem er upphaf allrar sköpunar. Þegar manneskja eða hlutur er helgaður breytir það ekki eðli hans heldur er það hlutverkið sem breytist. Staður getur ekki verið heilagur í sjálfu sér heldur er hann heilagur vegna hlutverksins sem hann gegnir eða hefur gegnt. Þegar manneskja er sögð heilög þýðir það einnig að hún sé frátekin til ákveðins hlutverks, ekki að hún sé betri eða merkilegri en einhver önnur.
Þegar Guð segir að jörðin sem Móses standi á sé heilög þá merkir það að Móses er þarna staddur í návist Guðs. Að Guð sé einmitt á þessum stað. Guð biður Móses að fara úr skónum áður enn hann gengur inn á heilaga jörð. Þetta þekkjum við vel. Við viljum t.d. gjarnan að fólk fari úr skónum áður en það kemur inn á heimili okkar, sér í lagi ef það er slabb úti eða þegar við höfum nýlega skúrað gólfið. Við viljum ekki að fólk skíti út það sem við höfum gert hreint alveg eins og við viljum ekki að fólk óhreinki það sem er okkur heilagt. Í Íslam er er gert ráð fyrir að fólk fari úr skónum áður en það gengur inn í helgidóminn og það á við um fleiri trúarbrögð. Það fylgir því ákveðin virðing að fara úr skónum og ganga berfætt inn í helgidóm eða jafnvel á sokkaleistunum inn á eldhúsgólf.
Þegar allt kemur til alls er það okkar, mannfólksins, að ákveða hvað er heilagt og hvaða merkingu heilagleiki hefur fyrir okkur. Hlutir geta verið heilagir í ákveðnum samfélögum en ekki í öðrum. Þannig eru nautgripir heilagir í hindúasið en ekki í kristni. Þannig er fjall heilagt hjá ákveðnum þjóðflokki í Ástralíu en ekki hjá múslímum. Það sem mér er heilagt er ekki víst að sé heilagt fyrir þér.
Það sem skiptir máli er að við getum borðið virðingu fyrir því að eitthvað sé heilagt, að eitthvað sé frátekið til ákveðins hlutverks. Í því felst virðing og skilningur á að við séum ekki æðst og merkilegust í hverju samhengi, að við þurfum að vanda okkur í umgengni okkar við fólk og staði.
Meirihluti Ástrala tilheyrir ekki ættbálkum frumbyggja. Þrátt fyrir það var að lokum tekin sú ákvörðun að virða það sem var heilagt fyrir öðrum. Það tók reyndar langan tíma og sú saga er blóði drifin og lengi framan af var ekki nokkur virðing borin fyrir þeim sem upphaflega byggðu það land. Að lokum náðist þó sá þroski í samskiptin að ákveðið var að virðingin fyrir því sem er náunganum heilagt hefði betur. Á sama hátt ber okkur að virða það sem öðru fólki er heilagt þó það sé ekki heilagt fyrir okkur. Þannig eignumst við fallegra samfélag.
Í dag langar mig að hvetja okkur öll til þess að umgangast hvert annað sem við séum heilög, enda erum við öll heilög sköpun Guðs. Ef fólk vill að við förum úr skónum vegna þess að það er nýbúið að þrífa þá gerum við það alveg eins og við göngum ekki upp á fjall sem öðrum er heilagt. Virðum það sem öðrum er heilagt og verum órædd við að láta annað fólk vita af því hvað er okkur heilagt.
Amen.