Skip to main content

Saga án endis

Eftir apríl 20, 2025Fréttir, Prédikanir

Saga án endis

Prédikun flutt í Dómkirkjunni á páskadag 20. apríl 2025

 

Ómöguleg staða

Þær voru í ómögulegri stöðu. Konurnar þrjár sem höfðu hugrekki og djörfung til þess að fara að gröf Jesú á páskadagsmorgun. Þær vissu að staðan væri ómöguleg. Það var búið að loka gröfinni tryggilega. Verðir vöktuðu gröfina en það sem hvatti þær áfram var kærleikurinn og ekkert annað. Það átti eftir að smyrja hann. Það átti eftir að undirbúa hann fyrir hinstu hvílu.

Við sem höfum misst þekkjum það hversu mikilvægt það er að sýna ástvininum okkar ást og umhyggju út yfir gröf og dauða. Að klæða mömmu í mjúka og hlýja sokka í kistunni, að hafa uppáhalds sængurver litla drengsins. Að leggja sálmabók eða bangsa ofan í kistuna og síðan að hugsa vel um leiðið.
Þetta skiptir mörg okkar miklu máli.
Þetta skipti Maríu Magdalenu, Maríu móður Jakobs og Salóme máli.

Konurnar bjuggu yfir seiglu. Þær höfðu fylgt Jesú allan tímann. Þær yfirgáfu hann ekki við krossinn og þær vildu sýna honum umhyggju eftir andlátið. Við hættum ekki að elska fólkið okkar sem er dáið.

Þær voru í ómögulegri stöðu því þær vissu ekki hvernig þær ættu að fara að þessu. Þær gerðu sér grein fyrir því að það væri ólíklegt að þeim yrði hleypt inn í gröfina. Þetta voru venjulegar konur sem voru á leið til ástvinar síns og voru að velta fyrir sér praktískum málum á leiðinni. Varla hafa þær haft hugmyndaflug í það sem átti eftir að gerast.

Það hefði verið mun þægilegra fyrir konurnar að sitja heima, að fara ekki að gröfinni. Verkefnið var hálf vonlaust en kærleikurinn kallaði og seiglan kom þeim áfram.

Enginn endir

Ég hef alltaf verið hrifin af kvikmyndum, bókum, leikritum með óræðum og opnum endi. Jafnvel endi sem er enginn endir. Sannarlega er góður Hollýwoodendir alltaf þægilegur en opinn endir krefst meira af okkur sem lesendum eða áhorfendum þar sem okkur er treyst fyrir framhaldinu. Það er líka eitthvað við bækur og kvikmyndir sem enda illa þrátt fyrir að það sé óþolandi. T.d. er ég nokkuð viss um að mörg ykkar sem eruð á mínum aldri eða eldri munið eftir írsku sjónvarpsþáttunum Ballykissangel  eða Nýi presturinn. Þessir þættir voru sýndir á RÚV í lok tíunda áratugarins, á þeim tíma er við horfðum flest á það sama í sjónvarpinu. Þættirnir fjölluðu um fólk í litlum bæ á Írlandi þar sem nýi presturinn, sem var kaþólskur, og kráareigandinn hrífast af hvort öðru. Loks þegar presturinn og kráareigandinn eru að ná saman þá deyr hún. Þetta var svo hræðilegt að það varð óformleg þjóðarsorg á Íslandi dagana á eftir og það var ekki nokkur leið að halda áfram að horfa á síðustu þættina. Þetta var of vont.

Guðspjall dagsins er án endis. Konurnar koma að gröfinni. Hún er tóm. Jesús er ekki þarna og því geta þær ekki lokið því verki sem þær komu til að sinna. Reyndar af öðrum ástæðum en þær höfðu gert ráð fyrir. Þær sjá þarna ókunnugan mann í hvítri skikkju sem segir þeim að vera ekki hræddar.

Steinninn var farinn, Jesús var horfinn og undarlegur maður situr inni í gröfinni og segir þeim að Jesús sé upprisinn og farinn á undan þeim. Þær fá það hlutverk að segja hinum lærisveinunum frá þessu.

Guðspjall dagsins er saga án endis. Vissulega höfum við upplýsingar um ýmislegt sem gerðist eftir þetta en upprisufrásögnin er án endis. Við erum, eins og konurnar þrjár, beðin um að trúa því að Jesús sé upprisinn. Eins og þær, erum við beðin um að færa boðskapinn áfram. Okkur er boðið að trúa á eitthvað  sem getur breytt lífi okkar, snúið öllu gildismati á hvolf.

Upprisa Jesú Krists breytir öllu og hún er án endis því henni er ekki lokið. Hún er öllum opin og hún rennur ekki út.

Að taka afstöðu

Fréttir heimsmálana að undanförnu minna frekar á föstudaginn langa en upprisu enda er fjöldinn allur af fólki um allan heim sem upplifir sinn langa föstudag dag hvern.

Fyrir viku síðan, á pálmasunnudegi, var Olena Kohut píanóleikari og organisti myrt af Rússum í úkraínsku borginni Sumy á leið á tónlistaræfingu. 36 létust þennan dag, þar á meðal tvö börn og önnur fimmtán særðust. Mörg þeirra á leið til eða frá helgihaldi.

Sótt er að mannréttindum úr ólíklegustu áttum. Nú undanfarið frá þjóð sem hingað til hefur að mestu leyti deilt svipuðu gildismati og við og önnur vesturlönd. Sjálft hugtakið mannréttindi virðist vera orðið skammaryrði innan ákveðinna hópa í Bandaríkjunum.

Löndin í kringum okkur eru í óða önn að vígbúast og undirbúa þegnana fyrir mögulega árás. Við erum beðin um að byrgja okkur upp af nauðsynjavörum.

Við sjáum með berum augum stríðsglæpi framda á Gaza sem mun nú vera hættulegasta svæðið fyrir börn í veröldinni. Alþjóðlegar hjálparstofnanir eru útilokaðar frá svæðinu og hafa verið frá því í mars. Í Súdan er heil þjóð að deyja úr hungri og við getum lítið gert.

Það sem við getum þó gert er að taka afstöðu. Ekkert okkar vill hafa þetta svona. Ekkert okkar vill stríð og við megum segja það. Við megum mótmæla því að verið sé að drepa saklaust fólk. Það er afstaða sem við getum tekið, og við eigum að taka.

Við búum ekki í svarthvítum heimi og skilin milli þess sem er rétt og rangt eru ekki alltaf ljós. En að taka afstöðu með börnum. Með þeim saklausu. Með friði. Það er rétt afstaða, og verður það alltaf.

Það er afstaða sem við getum tekið og eigum að geta tekið án þess að hljóta fyrir vikið pólitískan stimpil. Það er ekki pólitísk afstaða að fordæma barnamorð, hungurdauða eða sprengjuárásir á börn og aðra saklausa borgara á leið í messu. Það er bara rétt afstaða.

Við höfum haft mikið fyrir því að byggja hér upp lýðræðislegt, frjálst, öruggt og réttlátt samfélag þar sem mannréttindi eiga að vera í hávegum höfð. Hér eru viðurlög við því að brjóta gegn mannréttindum. Nú ríður á að við stöndum vörð um okkar frjálsa samfélag, um mannréttindi allra og látum ekki peningaöflin breyta því sem er satt og rétt og flokkspólitík gera okkur blind í afstöðu okkar.

Við getum tekið afstöðu og við eigum að standa óhrædd með því sem er rétt, því sem við trúum á og viljum standa fyrir í þessu lífi.

Kærleiksríkara samfélag

Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands sagði í viðtali sem tekið var við hana árið 2020 að stærsta áskorun okkar Íslendinga væri að halda áfram að vera heiðarlegt fólk og gæta okkar andspænis græðgi. Skilaboð hennar til okkar þá voru að við ættum að stunda heiðarleika og njóta lífsins.

Þetta eru góð skilaboð enn í dag og vel við hæfi á þessum páskadegi þegar við horfum upp á fólk berjast annars vegar með vopnum og hins vegar með peningum. Þetta eru einnig góð skilaboð nú þegar samfélagið okkar kallar eftir meiri kærleika. Þetta ákall kemur ekki síst eftir svipleg andlát sem urðu á síðasta ári, þar sem jafnvel börn voru drepin. Þetta ákall snýst um að við sýnum börnum þessa lands meiri kærleika og lítum upp úr símunum okkar um leið. Þetta ákall snýst um að við sýnum náunga okkar, hver sem hann er, meiri kærleika og minna tómlæti.

Þarna kemur trúin sterkt inn. Kristin trú snýst um kærleika. Guð sem er hinn æðsti kærleikur sigraði dauðan er Jesús Kristur reis upp. Þessi kærleikur er boðaður í kirkjum landsins hvern dag og svo hefur ávallt verið. Kirkjur landsins eru því ákveðið svar við þessu ákalli sem nú er uppi enda sækir ungt fólk nú kirkju og kirkjustarf í auknum mæli.

Saga án endis

Sagan um upprisuna er saga án endis. Ekki aðeins Guðspjallið sem við lesum á þessum páskadagsmorgni heldur sagan öll. Sögunni er nefnilega ekki lokið.

Upprisan býður okkur að ganga inn í heim vonar og upplifa eitthvað sem er stærra og meira en við sjálf.

Upprisan býður okkur að trúa því að hið góða sigri en hún gerir líka þá kröfu til okkar að við tökum ábyrgð. Vissulega getum við ekki gert mikið í hinu stóra samhengi stríðs og átaka en við getum alltaf stillt okkur upp við hlið mannréttinda og staðið með þeim sem er ráðist á, hvort sem það er í stríði eða með því að hrifsa mannréttindi af fólki. Þannig getum við tekið þátt í að skapa betri endi.

Jesús reis upp og fór á undan konunum sem fengu það erfiða hlutverk að segja frá því sem gerst hafði. Nú er þetta okkar hlutverk, að segja frá því sem við trúum á, standa með þeim sem verða undir, standa með mannréttindum allra.

Rétt eins og á páskadegi forðum er Jesús fór á undan konunum þá fer Jesús á undan okkur í dag. Hann hefur verið þar sem við erum. Hann veit hvernig það er að vera manneskja í landi sem ráðist er á. Hann veit hvernig það er að verða fyrir misrétti og fordómum. Hann veit hvernig það er að vera þú og ég sem nú verðum að standa með því sem rétt er og satt. Hann hefur verið í okkar sporum og hann er í okkar sporum alla daga.

Það skiptir öllu að við séum réttlát, sýnum náunganum kærleika, forðumst tómlæti og stöndum með fólki. Það getum við m.a. með því að fylgja Jesú eftir eins og konurnar forðum sem komu að gröfinni til að annast ástvin sinn. Að við breiðum út gleðiboðskap páskadags um að Jesús sé upprisinn. Að hið góða hafi sigrað og að hið góða sigri ávallt að lokum. Þannig tökum við þátt í að skapa betri endi á sögunni sem þó aldrei lýkur.

Dýrð sé Guði sem gengur á undan okkur og reisir heiminn við dag hvern.