Skip to main content

Kraftaverk og kjaftshögg

Eftir september 16, 2018Prédikanir

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju 16. september 2018 út frá Lúk. 7: 11-17.

Þekkir þú einhverja manneskju sem hefur verið reist upp á frá dauðum? Við þekkjum vissulega flest sögur fólks sem hefur dáið eitt augnablik og komið aftur en hér er ég að tala um einhver sem eru sannarlega dáin og eru á leið í gröfina.

Ég hef í gegnum tíðina kynnst nokkuð af fólki sem hefur misst barnið sitt. Ég hef bæði kynnst því í gegnum starfið mitt sem prestur en líka persónulega í minni nánustu fjölskyldu. Ég hef séð og upplifað hvernig slíkur missir breytir öllu. Það er varla nokkuð skelfilegra til en að missa barnið sitt. Slík sorg getur haft miklar afleiðingar allt í kring, bæði á foreldrana sjálfa en líka á systkini, afa og ömmur, fjölskyldu og vini.

Þessi kraftaverkasaga sem við heyrðum hér í dag, um það þegar Jesús reisir son ekkjunnar frá dauðum er eiginlega kjaftshögg þeim sem misst hafa.
Hún er ekki til þess fallin að auka trú.
Í það minnsta ekki ef hún er skilin bókstaflega.

Af hverju reisir Jesús ekki við barnið mitt? Mömmu mína eða afa? Gerði hann þetta bara til að sýna hvað hann gæti og hætti svo?

Ég skal alveg viðurkenna að ég er frekar jarðbundin. Ég stend frekar fast í báða fæurna og þeir eru vel jarðtengdir. Ég get ekki sagt að ég eigi auvelt með að trúa kraftaverkasögum. Ekki heldur þeim sem sagt er frá í Biblíunni. Ég ætla samt ekki að útiloka þessi kraftaverk. Ég veit ekki allt þó ég sé jarðbundin og er alveg tilbúin að skilja eftir svolitla rifu fyrir möguleikann á því að ég hafi rangt fyrir mér. Kannski vil ég vona að þrátt fyrir allt hafi kraftaverkin átt sér stað og að þau geti enn gerst í dag.

Skoðum aðeins þessa sögu. Við höfum hér tvær lifandi persónur, ekkjuna og Jesú. Hér er dáinn sonur og stór hópur fólks. Í þessum hópi eru fylgjendur Jesú og fólkið sem var að fylgja drengnum til grafar.

Ekkjan er kona sem hefur misst einkason sinn og eiginmann. Við vitum ekki hvort hún á dætur en það skiptir ekki öllu máli í þessu samhengi því sú staðreynd að karlmennirnir í lífi hennar eru dánir þýðir að hún hefur misst alla von um lífsviðurværi. Konur gátu ekki farið og unnið fyrir sér á þessum tíma eða séð sér farborða, nema mögulega með því að selja líkama sinn. Hún hefur þó að öllum líkindum verið of gömul fyrir það því vændiskonur lifðu stutt og byrjuðu afar ungar. Það var hlutverk feðra, eiginmanna og sona að sjá konunum farborða. Þessi kona átti ekkert eftir. Við getum gert ráð fyrir að hún hefði verið útskúfuð úr samfélaginu, að vinir og fjölskylda myndu ýmist snúa við henni baki eða í besta falli horfa hjálparvana á hana veslast upp.

Hún hafði misst barnið sitt. Hún hafði misst alla von um mannsæmandi framtíð.

Jesús sér, kennir í brjóst um, snertir og gefur líf. Þegar Jesús kemur þarna að er verið að bera drenginn til grafar og það var ekki óalgengt að mæta líkfylgd á þessum slóðum. Um það bil helmingur allra barna dó áður en þau náðu fimm ára aldri og meðalaldur fólks var um það bil 30 – 35 ár. Það þýðir þó ekki að það hafi verið eitthvað auðveldara að missa barn á þessum tímum, að það hafi komst upp í einhvern vana. Nei, það hefur verið alveg jafn sárt og að missa barn í dag.

Jesús sér, kennir í brjóst um , snertir og gefur líf.

Alls konar upprisur
Getur verið að þessi saga fjalli um eitthvað annað og meira en einstakt kraftaverk Jesú fyrir þessa einstöku konu?

Já, ég held að þessi saga merki einmitt það að Jesús sér, kennir í brjóst um, snertir og gefur líf.
Jesús reisir okkur upp frá dauðum.
Jesús reisir okkur upp.

Við getum nefnilega verið lifandi dáin á svo margan hátt og við þurfum öll á upprisu að halda annað slagið. Við getum þurft upprisu frá alls konar. Frá ofbeldi, kúgun, neyslu, niðurrifi, sorg, áföllum, kvíða og öllu hinu sem dregur okkur niður. Öllu hinu sem sogar úr okkur lífið.

En hvernig reisir Jesús okkur upp?

Ég held að það gerist þannig að Jesús, sem kom í heiminn til þess að sýna okkur hvernig Guð er, reisir okkur upp með því að gefa okkur kraft, styrk, orku og von til þess að líta upp og verða móttækileg fyrir hjálp En það gerist líka þannig að okkur berst hjálp í gegnum fólk sem við mætum. Þegar við mætum fólki sem óttast ekki þetta erfiða. Fólk sem þorir að tala við okkur um sorgina og svartnættið. Fólk sem þolir að vera með okkur í sársaukanum og sýna okkur að til sé leið út.

Jesús getur reist okkur upp frá alls konar en við getum líka verið verkfæri hans. Með því að sjá, kenna í brjóst um og snerta aðra manneskju getum við hjálpað Jesú við að reisa aðra manneskju upp.

Það er hægt að rísa upp úr öllu, líka verstu sorginni og mesta sársaukanum. En það er ekki auðvelt og við verðum aldrei sömu manneskjurnar og við vorum áður.

Jesús getur reist þig upp sama við hvað þú glímir. Ég hef séð það með eigin augum. Jesús hefur reist mig upp og hann mun þurfa að gera það aftur og aftur því við lendum öll í erfiðleikum og áföllum á lífsleiðinni og við komum okkur í erfiðleika og vesen einhvern tíma á ævinni og þurfum hjálp út.

Þekkir þú einhverja manneskju sem hefur risið upp frá dauðum? Ég þekki margar manneskjur sem hafa risið upp og sjálf hef ég oftar en einu sinni risið upp frá ýmsum erfiðleikum.

Þetta guðspjall er því ekki kjaftshögg þeirra sem misst hafa barnið sitt heldur tilboð til okkar allra um upprisu.
Amen.

 

Guðspjallið: Lúk 7.11-17
Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans.
En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“
Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið