Skip to main content

Himnaríki í gamalli kirkju

Eftir nóvember 24, 2024Fréttir, Prédikanir

Prédikun flutt í tilefni að aldraafmæli Oddakirkju á Rangárvöllum 24. nóvember 2024.

 

Aldarafmæli
Kæri söfnuður, innilega til hamingju með afmælið.

Það er mikilvægt að halda upp á afmæli og stóra viðburði og gleðjast yfir því sem er gott og gengur vel. Og þegar kirkja hefur staðið á sama stað í heila öld þá er ástæða til að gleðjast. Þessa kirkja er nefnilega ekki eingöngu hús heldur er hún tákn um líf, samstöðu fólks og iðkun trúar þar sem fólk kemur saman jafnt á gleði- sem sorgarstundum.

Oddakirkja er þannig hús. Og það sem meira er, er að Oddi mun vera einn elsti kirkjustaður Íslendinga því hér hefur staðið kirkja allt frá kristnitöku.
Í handriti Brynjólfs Jónssonar frá Minnahópi frá 1861 er að finna eftirfarandi vitnisburð um Odda á Rangárvöllum:

„Jólgeir landnámsmaður reið eitt sitt hart frá bæ sínum á Jólgeirsstöðum. Sá hann þar sand í sporum hestsins. Þá sagði hann: „Ekki verður þess langt að bíða, að þessi jörð, eyðileggist í sandfoki. Skal ég og hér ekki lengur vera“. Hann flutti sig þá burt frá Jólgeirsstöðum með allt sitt og hét því að hann skyldi þar sem búa sem hann yrði staddur um sólarlag um kvöldið. Var það í Odda og þar byggði hann síðan. Þau ummæli fylgja Oddastað frá fornöld að hann skal ávalt eflast með örlæti, en eyðast með nísku, og segja menn að það sé sannreynt, að örlátir menn búi það best.“

Ja, það er sannreynt að hér býr örlátt fólk best enda hefur Oddasókn verið ákaflega lánsöm hvað presta varðar auk þess sem hér hafa löngum búið miklir höfðingjar sem hafa látið til sín taka.

Eilífðarsunnudagur
Í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins, nokkurs konar gamlársdagur. Og hvað er meira viðeigandi á gamlársdegi en að huga að eilífðarmálunum, tilvistarspurningunum. Þessi sunnudagur fær titilinn eilífðarsunnudagur en er í fjölmörgum systurkirkjum okkar kallaður dómssunnudagur.

Efni þessa dags er eilífa lífið eða spurningin um það sem tekur við af lífinu sem við þekkjum nú, hér á þessari jörð.

Guðspjall dagsins á svolítið illa við nútímann. Engu að síður er textinn er áhugaverður og þess virði að glíma við hann.

Þar er sagt frá því að ákveðinn hópur fólks vilji ræða við Jesú um upprisuna. Þeir vitna í Móse og segja að ef maður deyji barnlaus þá skuli bróðir hans kvænast konu hans og eignast með henni börn (helst syni). Hér er um að ræða sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó án þess að eignast son. Þá gekk næsti bróðir í hjónaband með ekkjunni. Eins var um næsta og þriðja og alla sjö. Síðast dó konan. Og þá kemur spurningin, kona hvers þeirra sjö er hún í upprisunni?

Hér er sem sagt spurningin, hverjum þeirra bræðra var hún gift í himnaríki. Mér þykir mun áhugaverðari spurning, hvernig leið konunni sem þurfti að giftast sjö bræðrum til þess að eignast soninn sem aldrei kom? Hvernig var líf hennar?

Sagan er hér sögð frá sjónarhorni bræðrana en ekki konunnar en hún var þó sú sem lifði þá alla.

Hér ber að hafa í huga að ástæðan fyrir því að hún varð að eignast son var sú að án bæði sonar og eiginmanns átti hún enga möguleika á því að sjá sér farborða. Hún varð því að eignast son til þess að enda ekki hreinlega á götunni.

Í bókinni 60 kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason kemur einmitt þetta guðspjall fyrir á nokkuð skemmtilegan hátt. Við grípum niður í bókina í Maddömuhúsi þar sem sr. Árni bjó ásamt maddömum sínum. Einar er nýdáinn og ekkja hans og sambýlingar allir úr kotinu eru þarna staddir:

„Séra Árna þótti þá kvöldið heyra upp á sig og dró þvi fram sinn mikla svarta manúal og opnaði á þeim stað sem hann taldi baðstofu þessa nú stadda á.
„Ég gríp hér niður í Lúkasarguðspjalli: Meistari Móse segir oss í ritningunum, að deyji maður kvæntur en barnlaus, skuli bróðir hans ganga að eiga…“
Presturinn hikaði í lestrinum og bölvaði sér í hljóði, hann hafði ruglast, þvílíkur viðvaningur, þetta var alls ekki rétti kaflinn. En söfnuðurinn smái hafði hengt sín eyru á þessar línur og Steinka heimtaði meira.
„Eiga…?“
Séra Árni þorði ekki annað en að hlýða.
„…skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja. Nú voru…“
„Nú, já? Eru það kirkjulögin? Og hvað?“
„Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konuna og barnlaus. Gekk þá annar bróðirinn…“
„Ne-ei. Ekki Hannes. Hann tek ég ekki.“

Já, þarna var íslensk kona í Segulfirði sem tók þessum orðum alvarlega enda leit hún á þau sem kirkjulög en setti þó mörkin við annan bróðurinn. Hann vildi hún ekki ganga að eiga.

Okkur getur þótt þessi guðspjallstexti kómískur í dag en hann var þó bláköld staðreynd í miðausturlöndum á tímum Krists. Sem betur fer erum við ekki upp á þess konar biblíulög komin í dag og ekkja getur séð sér farborða hvort sem hún á son eður ei.

Upprisan og eilífa lífið
Já, það er auðvelt að láta guðspjall dagsins afvegaleiða sig í allskyns útúrdúra en efni þess er þó í raun ekki hver giftist hverjum heldur upprisa og eilíft líf. Jesús svarar spurningu fólksins um það hverjum konan er gift í upprisunni svo, að í upprisunni kvænist fólk hvorki né giftist heldur er það sem englar á himni.

Hverju trúir þú um eilífa lífið?
Um það sem tekur við af þessu lífi?

Pistill dagsins í 2. Korintubréfi tekur einnig á þessi spurningu en þar segir:

„Því að öllum ber okkur að birtast fyrir dómstóli Krists til þess að sérhver fái það endurgoldið sem hann hefur aðhafst í lifanda lífi, hvort sem það er gott eða illt.“

Með öðrum orðum. Fyrir dómstóli Krist er farið yfir gjörðir okkar og við dæmd út frá þeim.

Þegar ég hugsa um það sem tekur við af þessu lífi sé ég ekki fyrir mér Guð sem situr í hásæti og dæmir mig út frá gjörðum mínum. Ástæðan er sú að ég trúi því að Guðs sé hinn æðsti og mesti kærleikur. Ég trúi því að Guð þekki allar okkar innstu og dýpstu hugsanir og meti gjörðir okkar út frá þeim. Ef foreldri dæmir barn sitt mildilega, hversu miklu mun mildar mun hinn æðsti kærleikur þá ekki dæma okkur.

Ég trúi á eilíft líf, á líf sem heldur áfram með einhverjum hætti þegar þessu lífi líkur. Ég vona innilega að þar muni ég sameinast þeim sem eru mér kær og hafa kvatt þetta líf á undan mér. Ég veit þó ekki fyrir víst hvernig það verður. Ekkert okkar veit það.

Jesús gefur okkur vísbendingar um að lífið haldi áfram með einhverjum hætti en ekki hvernig. Samkvæmt guðspjalli dagsins eigum við í það minnsta ekkert að hafa áhyggjur af veraldlegu hjónabandi eftir þetta líf.

Ég verð að viðurkenna að mér er nokkuð sama um hvað það er nákvæmlega sem tekur við að loknu þessu lífi. Það nægir mér að vita að það sé gott. Það hafa þó komið þau tímabil þar sem ég hef velt þessu mikið fyrir mér og þegar við höfum nýlega misst einhvern sem okkur þykir vænt um þá verður vonin um endurfundi enn sterkari en annars og ég vona innilega að ég muni sjá á ný þau sem ég elska og ég hef misst.

Jesús talar ekki aðeins um himnaríki sem eitthvað sem tekur við að loknu þessu lífi því hann leggur ekki síður áherslu á himnaríki á jörðu og himnaríki innra með okkur. Að himnaríki sé eitthvað sem við getum eignast hér og nú.

Hugmyndin um himnaríki innra með okkur getur verið býsna góð lýsing á ástandi okkar og líðan þegar við erum í góðu jafnvægi, finnum til innri friðar. T.d. þegar allt gengur upp og þegar við finnum fyrir djúpstæðum kærleika. Þessar tilfinningar geta orðið sem sterkastar þegar við upplifum óeigingjarna ást til annarrar manneskju eins og við fæðingu barns. Tilfinningar ástfanginnar manneskju geta sannarlega jafnast á við himnaríki.

Himnaríki mitt á meðal okkar upplifum við mögulega þegar aðstæður okkar eru með þeim hætti að við upplifum heiminn réttlátan og góðan, þegar við fyllumst von yfir því að heimurinn sé í jafnvægi. Við finnum þetta vel þegar samfélagið sem við búum í virðist réttlátt og friðsælt og heimurinn almennt góður. Þessar upplifanir eru sjálfsagt ekki sem sterkastar hjá okkur þessa dagana en við getum einnig upplifað þetta þegar okkur nánasta umhverfi er í jafnvægi. T.d. þegar allt gengur að óskum í fjölskyldunni, á vinnustaðnum og meðal vina. Þá erum við mögulega himnaríki hvers annars.

Ég held að við getum öll verið sammála um að það sé harla gott að við konur þurfum ekki að giftast bræðrum maka okkar, hversu ágætir sem þeir eru, ef við lendum í því að verða sonarlausar ekkjur. Að sama skapi er ágætt að reyna að treysta Guði og losna okkur við að hafa áhyggjur af því sem gerist eftir þetta líf og einbeita okkur frekar að því lífi sem við eigum hér og nú.

Lífið eins og við þekkjum það nú er viðkvæmt og við vitum ekki hvenær það tekur enda. Því er svo mikilvægt að gera það allra besta úr því sem við höfum nú. Að elska fólkið okkar, að reyna að muna að njóta daganna þó að þeir geti verið hversdagslegir og stundum ósköp óspennandi. Að elska fólkið okkar og verja tíma með því á meðan það er hjá okkur.

Himnaríki í gamalli kirkju
Nú þegar við komum saman í þessari gömlu kirkju sem fagnar heilli öld og hugleiðum himnaríki er gott að hugsa til þess að við erum ekki þau fyrstu sem koma hér saman að ígrunda tilgang lífsins og eilífðina. Hér hefur fólk komið saman í Guðs nafni í hundrað ár, já og í raun allt frá upphafi kristni á Íslandi. Við þetta altari hafa margir merkir prestar og biskupar falið sig Guði og einn þeirra sr. Matthías Jochumsson samdi eftirfarandi kvæði um staðinn:

Eg geng á Gammabrekku
er glóa vallartár
og dimma Ægisdrekku
mér duna Rangársjár.

En salur Guðs sig sveigir
svo signir landsins hring,
svo hrifin sál mín segir:
Hér setur Drottinn þing.

Já, Oddi er mörgum kær og ekki er frá því að við fyllumst lotningu við að koma á stað sem á sér jafn ríka og merka sögu og Oddi sem Oddafélagið gerir góð skil ár hvert undir vernd frú Vigdísar Finnbogadóttur.

Það er ekki frá því að við færumst örlítið nær himnaríki í þessari fögru kirkju sem hefur að geyma merka og langa sögu.

Við færumst nær himnaríki á jörðu þegar við finnum hvað hér er gott að vera og vitum að hingað kemur fólk enn, heilli öld síðar í gleði og sorg, og sækir styrk til Guðs og náungans.

Við færumst nær himnaríki sem tekur við eftir þetta líf þegar við fáum tækifæri til þess að íhuga það og erum minnt á að treysta Guði fyrir því að allt fari vel.

Dýrð sé Guði sem vill að við sköpum himnaríki á jörðu og gefur okkur eilíft líf.