Skip to main content

Ekki í stíl

Eftir desember 24, 2019Prédikanir

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á aðfangadag 2019

Ég sá fyrir nokkru mynd í innréttingablaði af fallega skreyttu jólatré. Það var stílhreint, skreytt með smart kúlum í einum lit og hvítri ljósaseríu. En það var eitt smáatriði sem breytti heildarmyndinni. Ein kúlan var í öðrum lit og allt öðruvísi en hinar. Hún leit út fyrir að vera jafnvel heimagerð.

Ég get ímyndað mér að fólk skiptist gróflega í tvennt í áliti sínu á þessu jólatré. Annað hvort þykir okkur þessi eina kúla fullkomna tréð, kannski með því að ýta undir hvað allt hitt er einsleitt. Eða að okkur finnst þetta óþægilegt, að ein kúlan skeri sig svona úr og eyðileggi heildarsvipinn.

Ég sé fyrir mér hvernig fólkið, sem átti tréð, vildi hafa heimilið sitt flott og fínt og þá átti að sjálfsögðu hið sama við um jólatréð. En svo kemur barnið þeirra heim úr leikskólanum með jólakúluna sem það föndraði alveg sjálft. Hún er svo falleg, á sinn hátt. En hún passar ekki á tréð. Hún brýtur upp stílinn, svona eins og börn gera gjarnan. En hvað geta þau gert? Auðvitað hengja þau kúluna á tréð. Og þau hengja kúluna á tréð á hverju ári upp frá þessu.

Ert þú með svona kúlu á þínu tré? Jafnvel margar? Þykir þér erfitt að hengja þær á tréð og brjóta stílinn eða eru þetta kannski uppáhaldskúlurnar  og jólatréð hvort sem er skreytt í öllum mögulegum litum? Ég held að þessi eina kúla hafi orðið uppáhaldskúla fólksins sem átti stílhreina jólatréð. Ég held að hún hafi orðið uppáhaldskúlan vegna þess að litlar hendur bjuggu hana til og gáfu hana af hreinum kærleika og stolti til foreldra sinna.

Ef þú ert svo heppin/n að einhver manneskja hefur fyrir því að búa til skraut á jólatrréð fyrir þig, þó það sé búið til í skólanum eða leikskólanum, þá ert þú elskuð manneskja.

Þetta er þó að sjálfsögðu ekki eini mælikvarðinn á ást en hann er þó stór og skiptir máli. Þú neitar ekki jólakúlu, sem búin er til af svo miklum kærleika, stað á jólatrénu.

Jesúbarnið

Þegar Guð kom í heiminn sem manneskja þá var það sem lítið barn og ekki nóg með það heldur fæddist Guð í heiminn sem manneskja við afar óöruggar aðstæður. Það var lítið sem ekkert búið að undirbúa fæðinguna. Foreldrarnir neyddust til að fara í ferðalag með einn asna sem fararskjóta til þess að láta skattskrifa sig í heimabyggð Jósefs einmitt þegar María var við það að fara að eiga. En þau gátu ekki mótmælt þessari ákvörðun Ágústusar keisara því bæði hann og Heródes konungur höfu svipaða stöðu í hugum fólks og Hitler og Mússólíni höfðu á sínum tíma. Fólk hlýddi því sem þeir fyrirskipuðu.

Hversu trúverðugt fyrirbæri er Guð sem birtist heiminum sem ósjálfbjarga barn sem þarf á okkur að halda til að lifa af? Á ekki Guð að birtast okkur með pomp og prakt, flugeldum og krýningum?

Þessi saga, sem við segjum hver jól, af frelsaranum sem kom í heiminn til þess að sýna okkur hvernig Guð raunverulega er, er svo hversdagsleg og svo laus við upphefð að það er varla hægt annað en að trúa henni, hvort sem við túlkum hana bókstaflega eða ekki. Hún er svo venjuleg í einfaldleika sínum að hún gefur ekkert rými fyrir hroka eða rembu.

Fyrir mér er sagan af Guði, sem fæðist í heiminn sem lítið barn, saga um ást. Þessi saga er ekki af Guði sem birtist okkur með látum heldur af Guði sem kemur inn í allar okkar aðstæður með svo lágstemmdum hætti að við tökum varla eftir því. Guð sem kemur til okkar með þessum hætti og gefur okkur val um að þiggja mátt sinn eða að láta vera, getur ekki verið neitt annað en kærleikur.

Jólakúlan Guð

Guð kom í heiminn eins og jólakúlan sem er öðruvísi en allar hinar vegna þess að hún er búin til úr ódýrum efnum og við ómerkilegar aðstæður en er svo full af kærleika.

Og eins og jólakúlan sem fékk að hanga á trénu hjá fólkinu, sem var svo smart að jólatéð var skreytt með einum lit, fær Guð aðeins að hanga á okkar tré ef við viljum það. Við getum valið að hafa allt í stíl, flott og fínt og í réttu litum, fylgja tískustraumum dagsins, jafnvel í trúar- og lífsskoðunum og sleppa Guði af trénu okkar.

Við getum líka valið að leyfa þessari kúlu sem er öðruvísi en allar hinar að vera hluti af lífi okkar. Að hleypa þessum kærleika inn og gefa honum stað í hjarta okkar.

Guð er eins og þessi kúla sem litla barnið föndraði og var ekki stíl til að byrja með en varð síðar metin af mörgum vegna kærleikans sem barnið lagði í kúluna.

Jólakúlan ég

Ef Guð er með jólatré þá erum við, hvert og eitt, eins og þessi kúla sem barnið bjó til. Munurinn er þó sá að á þessu tré eru engar kúlur í stíl. Þær eru allar ólíkar og allar búnar til af meiri ást og kærleika en við getum nokkurntíma gert okkur í hugarlund að til sé. Þannig er hver einasta manneskja einstök og þess vegna ber okkur að líta þannig á allt fólk, sem einstaka og elskaða sköpun Guðs. Og einmitt þess vegna á að vera pláss fyrir allar manneskjur í veröldinni, hvar sem við fæðumst og hver sem við erum. Og þess vegna eigum við að hjálpast að og búa til rými fyrir hverja einustu manneskju á jörðinni okkar svo við fáum öll að njóta okkar á litríku tré Guðs.

Við getum velt því fyrir okkur þessi jól hvort það sé pláss fyrir Guð á okkar tré um leið og við minnum okkur á að við erum ekki sköpuð öll í stíl, að saman erum við hluti af litríkum heimi þar sem við eigum öll að fá pláss.

Dýrð sé Guði sem er ekki stíl og elskar okkur eins og við erum.

Guð gefi þér gleðilega jólahátíð.