Prétidkun flutt í Grafarvogskirkju 19. ágúst 2018
o
Ég væri til í að geta farið til Jesú með allt fólk sem hefur aðrar skoðanir og ég á því sem skiptir máli. Fólk sem er leiðinlegt við mig vegna þess að því finnst trú heimskuleg og þolir ekki presta. Fólk sem mér finnst vera vont. Ég væri til í að fara með alla óþekka krakka til Jesú og biðja hann að gera þá þæga. Svo ekki sé minnst á fólk sem beitir ofbeldi, já og forseta Bandaríkjanna og íhaldsama karlinn sem þolir ekki frjálslyndan prest sem auk þess er kona. Jesús má alveg leggja hönd yfir hann og opna augu hans fyrir því að hann hefur rangar skoðanir. Mikið held ég að heimurinn yrði mikið þægilegri ef fólk væri aðeins líkara mér.
Um síðustu helgi tók ég þátt í gleðigöngunni ásamt mörg þúsund manns. Á þessum degi fylltist Reykjavík af alls konar fólki sem vildi sýna að það fagnaði fjölbreytileikanum, að það væri opið fyrir því að við erum ólík og alls konar.
Þetta var góður dagur til að fagna því og kirkjan tók þátt í göngunni eins og vera ber. En hversu opin ætli við séum í raun fyrir því að við séum alls konar og ólík. Við erum komin nokkuð langt í því að breyta viðhorfum þegar kemur að hinsegin fólki, þó enn eigum við nokkuð í land eins og sést alltaf á nokkrum fyrirsögnum á fréttamiðlum á hverju ári er hinsegin dagar nálgast. Þessi barátta hefur verið löng og hún hefur verið blóðug. Hún hefur kostað líf og enn í dag er verið að brjóta á mannréttindum samkynhneigðs fólks um allan heim og jafnvel taka fólk af lífi vegna kynhneigðar.
Hversu opin erum við, svona í alvöru talað, fyrir þeim sem eru öðruvísi en við? Fólki sem hefur aðrar skoðanir á því sem skiptir okkur máli? Fólki sem hefur önnur lífsgildi en við? Hversu opin erum við fyrir fólki með ýmiskonar fötlun? Já, og hversu opin erum við fyrir okkar eigin fötlunum, fyrir því sem við erum ósátt við í fari okkar sjálfra, við líkama okkar eða persónuleika. Fyrir því sem við getum ekki breytt?
Skrítið guðspjall
Guðspjall dagsins er hálf undarlegt. Einhverjir menn koma með heyrnarlausan og málhaltan mann til Jesú og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Okei, þeir vilja að vinurinn læknist af þessari fötlun sinni, heyrnarleysinu. Skiljanlega.
Kannski.
Það er efitt að vera heyrnarlaus og ekki veit ég hversu táknmál var útbreytt á þessum stað og á þessum tíma. Þetta voru hjálpsamir menn. Þeir vildu að maðurinn losnaði við heyrnarleysið og yrði eins og þeir.
Og hvernig bregst Jesús við? Jú, hann fer með manninn afsíðis. Hann gerir ekkert fyrir framan hópinn. Kannski vill hann spyrja manninn hvað hann vilji sjálfur. Það kemur nefnilega ekki fram hvað maðurinn sjálfur vill, hvort hann hafi einhvern áhuga á því að losna við heyrnarleysið. En hvað sem þeim fer á milli þá hefst hér all undarleg aðgerð hjá Jesú þegar hann stingur fingrum í eyrun á honum og vætir tungu hans með munnvatni sínu. Hmmmm… En síðan lítur hann til himins, andvarpar og segir: „opnist þú“.
Maðurinn, þessi heyrnarlausi fer að heyra og getur talað án vandræða.
Ég hef ekki upplifað heyrnarleysi en ég veit að fólk sem býr við það getur upplifað sig einangrað enda er ekki mikið af fólki sem talar þeirra tungumál. Það er aðeins lítill hópur á Íslandi sem talar íslenskt táknmál því táknmálið er ekki alþjóðlegt. Táknmál er heldur ekki bara þýðing á íslensku yfir á táknmál. Þetta er alveg sér tungumál. En ég er ekkert alveg sannfærð um að allt heyrnarlaust fólk vilji fá heyrn.
Ætli það sé endilega þannig að allt fólk sem býr við einhverja fötlun, eða er að einhverju leyti öðruvísi en meirihluti fólks, vilji endilega breytast og verða eins og öll hin? Getur verið að við búum kannski öll við einhverja fötlun, líkamlega eða andlega og séum alltaf að berjast við að verða eins og einhver óskilgreindur „fullkominn“ meirihluti? Ætli við teljum okkur trú um að lífið verði þægilegra ef við reynum öll að vera svipuð. Ef við pössum bara öll inn í „normið“?
Hin fullkomna heild
Eru það kannski fyrst og fremst hin ófötluðu sem vilja að hin fötluðu læknist eða breytist svo að við verðum öll eins? Kannski er ýktasta dæmið um þetta sú staðreynd að nánast ekkert barn fæðist lengur með Downs heilkennið á Íslandi.
Getur verið að persónurnar í sögunni sem hafi þurft að opnast hafi kannski verið mennirnir sem færðu manninn til Jesú en ekki sá sem bjó við heyrnarleysi og málhelti? Getur verið að þetta andvarp Jesú, til Guðs, um að við opnumst sé tilboð til okkar allra? Að okkur standi öllum til boða að opna okkur og sjá að við þurfum ekki öll að vera eins. Að kannski sé það blessun að vera einmitt eins og þú ert, fötluð eða ófötluð, hinsegin eða svona.
Okkur hættir mjög til þess að túlka lækningasögur Jesú í Biblíunni á þann veg að hin veiku eða þau sem eru með fötlun og fá hjálp Jesú, séu þau sem þurfi lækningu við. En mögulega er þessu oft öfugt farið. Kannski eru það einmitt þau sem ekki búa við fötlunina sem þurfa lækningu, þurfi að opna sig fyrir fjölbreytileikanum.
Algengar túlkanir á lækningasögum Jesú eru í þá átt að fötlun fólks lýsi vanköntum okkar, því sem við þurfum að breyta í fari okkar. Það má þó halda því fram að slík túlkun sé móðgun við þau sem búa við fötlun. Þessar sögur má alveg eins túlka á þann hátt við breytum viðhorfum okkar til þeirra sem eru öðruvísi en við og því sem okkur finnst við þurfa að breyta eða fela hjá okkur sjálfum.
Opna mig
Ég held að mennirnir og hinn heyrnarlausi hafi allir þurft að opna sig fyrir anda Guðs. Og þetta tilboð Guðs um að opna okkur stendur. Þér og mér stendur til boða að opna okkur raunverulega fyrir því að við erum ekki öll eins. Þér og mér stendur til boða að opna okkur fyrir því að við erum með ólíkar skoðanir, höfum ólík gildi og að fólk sem býr við fötlun þurfi kannski bara alls ekki lækningu til þess að verða eins og einhver óskilgreind „fullkomin“ heild. Það er nefnilega þannig að ekkert okkar tilheyrir þessari „fullkomnu heild“.
Hún er ekki til.
Kannski ætti ég, frekar en að biðja Guð um að breyta öllu fólkinu í kringum mig sem mér finnst erfitt, að horfa til himins og senda Guði andvarpið: „Opna mig“. Opnaðu mig Guð fyrir því að við erum alls konar. Opna mig fyrir því að ég er í lagi þrátt fyrir allan minn ófullkomleika og opna mig fyrir því að náungi minn er líka í lagi þó hann geti verið óþolandi þegar hann hefur aðrar skoðanir en ég og þegar honum líkar ekki við mig. Opna okkur fyrir því að eiga samtal við þau sem eru öðruvísi en við svo við getum reynt að skilja þau betur og hætt að reyna að steypa okkur öll í sama mótið.
Guð elskar allar manneskjur hvort sem okkur líkar það betur eða verr.
Amen.