Skip to main content

Þórunn og sálin hans Jóns

Eftir nóvember 24, 2019Prédikanir

Himnaríki
Í þjóðsögunni „Sálin hans Jóns míns“ segir frá konunni hans Jóns og baráttu hennar við að koma honum Jóni sínum inn fyrir gullna hliðið, inn í himnaríki. Takið eftir því að kona Jóns ber ekkert nafn í sögunni heldur er hún aðeins kennd við mann sinn, eins og nokkuð er um enn í dag þegar kemur að fréttaflutningi. Ég legg því til að við köllum hana Þórunni. Það er svo óeðlilegt að kona sé ekki með eigið nafn, hún sem er aðalpersónan í sögunni.

En þannig var að Jón var ekkert sérstaklega góður maður. Hann var heldur ódæll, illa þokkaður og þar að auki latur og illa ónýtur á heimili sínu. En þrátt fyrir það unni Þórunn honum Jóni sínum heitt. Þegar hann er við það að gefa upp öndina fer Þórunn að hugsa um það sem tekur við að þessu lífi loknu og áttar sig á því að Jón muni aldrei komast inn í himnaríki eins og hann hagaði sér í þessu lífi.  Hún tekur þá á það ráð að setja skjóðu fyrir vit hans, um leið og hann gefur upp öndina, og fanga þannig sálina þegar hún yfirgefur líkamann. Hún bindur þá vel fyrir og heldur beint að hliðum himnaríkis til þess að koma honum Jóni sínum á framfæri. Þarna við hliðið hittir hún fyrir bæði heilagan Pétur, heilagan Pál auk Maríu móður Jesú og ekkert þeirra vill hleypa honum Jóni inn þrátt fyrir að Þórunn geri sitt besta til þess að sýna þeim fram á að sjálf hafi þau ekki verið mikið skárri en Jón hennar á meðan þau gengu um á þessari jörð. Að lokum kemur Jesús sjálfur til dyra og jafnvel hann vill ekki hleypa Jóni inn. En rétt áður en hliðið lokast tekst Þórunni að kasta skjóðunni með sálinni hans Jóns inn fyrir hliðið og við það léttir henni mikið. Henni tókst, þrátt fyrir allt, að koma honum Jóni sínum inn í himnaríki.

Til er flökkusaga sem er á þá leið að lykla Pétur hafi tekið hlutverk sitt við hliðið afar alvarlega og aðeins hleypt þeim inn í himnaríki sem áttu það sannarlega skilið. Síðan skilur hann ekkert í því hversu hratt fjölgar í himnaríki þrátt fyrir alla hans fyrirvara og takmarkanir. Það er bókstaflega allt að fyllast af fólki. Að lokum sér hann að það getur ekki verið allt með felldu og hann fer og kannar málið. Þá kemur í ljós að á meðan hann hleypir aðeins þeim inn sem hafa lifað sem næst fullkomnu lífi, þá hefur Jesús hleypt öllum hinum inn um hliðardyrnar.

Að dæma
Mikið er ég fegin að þurfa ekki að dæma í öllu því sem upp kemur í samélaginu.   Sem betur fer er það ekki ég sem þarf að dæma í Samherjamálinu og ég þakka Guði fyrir að það var ekki ég sem þurfti að dæma í Klaustursmálinu í fyrra. Öll þessi hneykslismál sem ég hef svo sannarlega skoðun á eru þó, sem betur fer, ekki á mínu valdi að dæma í. Ég má svo sannarlega hafa skoðun á þessum málum og öðrum sem komist hafa í hámæli en það er ekki mitt að fella endanlega dóma. Ég ætla þó að segja strax, svo það sé alveg á hreinu, að ég tel bæði þessi mál hafa verið þeim sem að þeim stóðu til háborinnar skammar og að við fyrstu sín hafa afleiðingar þessarar hegðunnar ekki verið í neinu hlutfalli við alvarleika þessara mála.

Ætli ég verði ekki bara að viðurkenna að stundum væri ég kannski alveg til í að vera dómari, svona þegar mér finnst ekkert vera að gerast í spillingarmálum og óréttlætið öskrar á okkur.

Þó er það svo að dómarar dæma ekki eftir hentisemi heldur eftir lögum og reglum og verða að rökstyðja dóma sína vel. Okkur getur stundum virst sem dómarar láti skoðanir og tilfinningar hafa áhrif á dóma sína en hvað sem okkur kann að finnast þá þurfa þeir í það minnsta að rökstyðja sína dóma og lengi er hægt áfrýja dómum ef við erum ekki sátt.

Réttlátir dómar?
Getum við teyst því að allt sem upp kemur í okkar brotna heimi verði dæmt á réttlátan hátt, þannig að allir skúrkar fái makleg málagjöld og þau sem eru raunverulega saklaus verði sýknuð? Eða viljum við kannski að okkar persónulegu skoðanir, tilfinningar, hefnigirni, öfundsýki og almenn hneykslan fái að hafa svolítil áhrif á dómana?

Við vitum að dómarar eru ekki óskeikulir og allir dómar því ekki hundrað prósent réttlátir. Gott dæmi um það er Guðmundar og Geirfinnsmálið. Við vitum líka að þrátt fyrir að flestum okkar finnst eitthvað um flesta hluti þá er það ekki endilega réttlátt og óskeikult mat. Svo eru það öll málin sem aldrei er dæmt í m.a. vegna þess að um valdamikið fólk er að ræða. Það stefnir allt í að Samherjamálið fari á þann veg.

En er þá til eitthvað sem heitir réttlátur dómur?

Ég sagði áðan að ég væri fegin því að þurfa ekki að dæma í málum og ástæðan er sú að þegar upp er staðið þá er dómur Guðs eini dómurinn sem ég treysti að sé fullkomlega réttlátur. Ég treysti dómi Guðs því Guð er það eina sem hefur allar forsendur sem þarf til þess að geta dæmt. Við getum ekki platað Guð með því að reyna að fegra okkur og við þurfum ekki að gera það. Guð veit hvers vegna við erum eins og við erum, hvers vegna við breytum eins og við breytum. Guð þekkir leyndarmálin okkar sem betur fer.  

Ég segi “sem betur fer” vegna þess að þrátt fyrir að okkur þyki leyndarmálin okkar oft skammarleg og neyðarleg þá er ég alveg viss um að þau eru langt því frá jafn skammarleg og við sjálf upplifum þau. Því þegar ljós Guðs lýsir á okkur og allt okkar líf birtist, leyndarmálin, angistin, erfiðleikarnir, vonbrigðin, gleðin og sigrarnir þá verður ljóst hvers vegna við breyttum eins og við breyttum. Þá sjáum við skýringuna á því hvers vegna við erum eins og við erum.

Öll eigum við leyndarmál sem við upplifum að þoli ekki dagsljósið. Öll höfum verið gert og hugsað eitthvað sem við skömmumst okkar fyrir og viljum ekki deila með neinni manneskju. Sum okkar hafa jafnvel gert hræðilega hluti. En ég er líka nokkuð viss um að þegar við síðan deilum þessum hlutum, þá kemur í ljós að þeir er alls ekki eins slæmir eða skammarlegir og við töldum. En ef þeir eru það þá þurfum við að vera manneskjur til að taka afleiðingum þess sem við gerðum og til þess að geta átt möguleika á fyrirgefningu. Þegar við höfum gert það þá eigum við sama möguleika og allt annað fólk frammi fyrir dómi Guðs.

Himnaríki
Þórunn, konan hans Jóns var góð kona og sagan um sálina hans Jóns míns sýnir okkur að jafnvel hinn versti skúrkur getur átt einhverja manneskju sem elskar hann/hana og er tilbúin að hjálpa honum. Kannski er þetta dæmi um meðvirkni út yfir gröf og dauða. Kannski er það bara hjartahlýja og skilningur á því að við erum öll ófullkomin, jafnvel postularnir og María mey. Og sagan um Jesú sem hleypti öllum inn um hliðardyrnar minnir okkur á að Guð þekkir okkur betur en við sjálf og sér svo margt miklu betra í okkur en við gerum sjálf. Guð sér okkur nefnilega eins og við erum og sú mynd er yfirleitt svo miklu skýrari og bjartari en sú sem við sjáum.

Guð sér ástæðurnar fyrir því að við erum eins og við erum.

Þegar kemur að dómum þá trúi ég því að við þurfum ekki að óttast dóm Guðs. Við þurfum miklu fremur að óttast dóma okkar sjálfra og samferðafólks okkar. Þannig erum það við sjálf og samferðafólk okkar sem getum dæmt okkur til helvítis, ekki Guð.

Ef Guð elskar okkur eins og við erum, með öllum okkar mistökum og göllum og öllum okkar afrekum og kostum þá ættum við einnig að elska okkur sjálf.

Við þurfum því ekki að óttast dóm Guðs, sem ávallt sér það besta í okkur en látum vera að bera fullt traust til dóma okkar sjálfra. Og reynum að muna það, þegar við dæmum annað fólk, að við þekkjum ekki alla söguna, við þekkjum ekki ástæðurnar fyrir athöfnum annarra og jafnvel oft ekki okkar sjálfra.

Dýrð sé Guð sem ávallt sér okkur mildum og réttlátum augum og  dæmir aðeins af meiri elsku en við munum nokkurntíma þekkja.