Nýr prófastur
Nú fyrir messu var mér boðið inn á heimili prófasts. Inni í eldhúsinu er að finna forláta krítartöflu og á hana hafði einhver teiknað mynd með yfirskriftinni „Krýning prófasts“. Á myndinni er manneskja í skikkju og með sverð (væntanlega biskup) og prófastur krýpur á gólfinu fyrir framan hana. Þetta var nokkuð áhrifamikil mynd og það var ágætt á mig þegar ég komst að því að höfundurinn var eitt sinn fermingarbarn hjá mér. Ég get þó fullvissað ykkur um að ég tók ekki með mér sverðið, aðeins skikkjuna.
Kæri prófastur, Óskar: Til hamingju með daginn. Já og til hamingju kæra kirkjufólk í Suðurprófastsdæmi með prófastinn ykkar!
Þú hefur nú tekið við ákaflega mikilvægu og ábyrgðarmiklu embætti, sem ég veit að þú munt annast vel. Eftir tvo áratugi í prestsþjónustu, 16 ár á Íslandi og fulltrúi í héraðsnefnd í áratug taldi ég mig vera með hlutverk og mikilvægi prófasta svona nokkurn veginn á hreinu. En til viðbótar þurfti þrjá mánuði í þjónustu biskups Íslands til þess að ég gerði mér raunverulega ljóst mikilvægi embætti prófasts.
Prófastar eru lykilfólk í langri keðju mikilvægra þjóna innan kirkjunnar. Raunar er það svo að þetta embætti hefur þróast hratt og tekið miklum breytingum á undanförnum árum, ekki síst eftir að kirkjan öðlaðist sjálfstæði sitt með nýjum Þjóðkirkjulögum og prestar hættu að vera opinberir embættismenn.
-Prófastur starfar náið með biskupi Íslands.
-Prófastur er í nánu og reglulegu sambandi við presta, djákna, sóknarnefndir og starfsfólk í prófastsdæminu.
-Prófastur þarf að vera manneskja sem á auðvelt með að hlusta, getur sett sig í spor annarra og vera tilbúin til að leita lausna þegar ágreiningsmál koma upp.
En fyrir utan góða leiðtogahæfni og áhuga á fólki þá þarf prófasturinn, eins og við öll, fyrst og fremst að koma fram grímulaust og hafa hugrekki til að viðurkenna mistök en líka að gera sem minnst af þeim.
Það er nefnilega svo góð lexía fyrir okkur öll, hvaða starfi eða þjónustu sem við gegnum að skoða hvernig Jesús valdi lærisveina sína. Hann valdi ekki fullkomnasta fólkið. Hann valdi fólk með ýmsa galla, enda eru gallalausar manneskjur víst ekki til. Jesús valdi fólk sem kom til dyranna eins og það er klætt. Fólk sem reyndi ekki að breiða yfir mistökin heldur viðurkenndi þau en reyndi samt ávallt að gera sitt besta. Hann valdi fólk sem tók ábyrgð.
Að sjálfsögðu verðum við að velja fólk út frá hæfni í öll störf og það gerum við svo sannarlega í kirkjunni. En þegar prófastur er valinn duga ekki eingöngu venjulegar hæfnikröfur. Í embætti prófasts verður að vera manneskja sem fólkið í prófastsdæminu treystir, manneskju sem er reiðubúin til þess að vera bæði lærisveinn Krists og hirðir safnaða. Hún þarf í senn að fylgja… og leiða.
Já, eins og þið heyrið er ekkert grín að vera prófastur og ekkert grín að velja prófast en ég veit að sr. Óskar mun reynast traustur og góður prófastur eins og hann hefur reynst sem prestur.
Skyldur prófasts eru margar og miklar og þú þekkir þær allar kæri Óskar en það er líka hlutverk presta, djákna, sóknarnefndarfólks og íbúa í prófastsdæminu að taka vel á móti sínum prófasti.
Þið eruð góðu vön hér í Suðurprófastsdæmi þar sem sr. Halldóra Þorvarðardóttir hefur gegnt þjónustu prófasts af einstakri alúð og ræktarsemi. Samstarfið við hana hefur verið virkilega gott. Við náðum meðal annars að fara saman í gegnum þrjú ráðningarferli á þeim stutta tíma sem við vorum samtíða.
Og það er einmitt vegna þess að þið í Suðurprófastsdæmi eruð góðu vön að ég trúi því að þið takið á móti nýjum prófasti af sömu hlýju og virðingu og Halldóra hefur fengið að njóta, og af sömu ástæðum er viðbúið að gerðar verða ríkar kröfur til nýs prófasts.
Þú ert fyrsti prófasturinn sem ég fæ að setja inn í embætti og ég hef hlakkað til þessa dags lengi. Eins og ég veit að þú hefur einnig gert. Ég hef hlakkað til að fá að setja þig inn í þetta embætti vegna þess að ég veit að þú ert svo sannarlega tilbúinn til þess að bretta upp ermarnar og taka við þjónustunni.
Ótti
Nýr prófastur tekur við embætti einmitt þegar kirkjuárið er að líða undir lok. Eitt einkenni þessara síðustu sunnudaga kirkjuársins er að textarnir verða drungalegri með hverri helginni sem líður þar til nýtt kirkjuár hefst fyrsta sunnudag í aðventu.
Í guðspjalli þessa sunnudags er varað við hræsni og feluleik því öll okkar verk eiga að þola dagsbirtu. En í dag ávarpar Jesús einnig hræðsluna, óttann og hann biður okkur að óttast ekki fólk heldur Guð.
Jú, það sem Jesús er að biðja okkur um er að setja traust okkar á það almætti sem er stærra en lífið sjálft í stað þess að vera of upptekin af því sem einungis hefur áhrif í þessum breyska heimi okkar.
Óttinn er kunnuglegt stef í Biblíunni þó algengara sé að Jesús sé að biðja okkur að vera óttalaus.
Óttinn er enda sannarlega eitthvað sem við eigum að vera á varðbergi gagnvart enda getur óttinn verið svo óskaplega eyðandi afl. Óttaslegin manneskja getur verið hættuleg manneskja. Stjórnmálaleiðtogi sem elur á ótta er hættulegur og við verðum að gæta okkar á að falla ekki fyrir slíkri stjórnun. Sagan kennir okkur að mestu myrkraverkin eru hugleidd, framkvæmd og réttlætt í skjóli óttans.
Óttinn er óvinur okkar, og fólk sem elur á ótta eru ekki með okkur í liði.
Hugrekki
Guð þekkir þig og Guð þekkir mig. Guð veit nákvæmlega hver við erum. Guð telur hvert hár á höfði okkar. Og þessi Guð vill ekki að við séum óttaslegin heldur biður okkur að vera óhrædd. Og stundum þarf hugrekki til að sigrast á óttanum. Hugrökk manneskja er ekki endilega óhrædd manneskja, en hugrökk manneskja er sú sem lætur óttann ekki stöðva sig og ekki stjórna sér.
Hugrekki stýrir okkur á rétta braut, og af blaðsíðum sögubóka lesum við að það eina sem klýfur skuggavarp myrkraverkanna eru sögur af hugrekki einstaklinga. Sögurnar af fólkinu sem þorði að standa úti í kuldanum með þeim sem ekki voru velkomin í hlýjuna. Sögurnar af fólkinu sem lagði sín lífsgæði, sín þægindi, sína velmegun undir og sýnd öllum öðrum að það væri sannarlega, ekkert að óttast.
Á þessum degi, þegar Suðurprófastsdæmi tekur formlega á móti nýjum prófasti langar mig að leggja ykkur hugrekki í brjóst.
Þegar lífið er ekki eins og við vildum helst að það væri, þegar við finnum að óttinn er farinn að stýra gjörðum okkar, reynum þá að finna hugrekkið og fara gegn óttanum.
Það krefst hugrekkis að taka að sér það viðamikla og vandasama hlutverk að vera prófastur en þú kæri Óskar, gætir ekki verið á betri stað með fólkinu í þessu góða en víðfeðma prófastsdæmi. Þú býrð að mikilli reynslu, góðu baklandi og ekki sýst auðmýkt og hugrekki.
Verkefni okkar í kirkjunni er að boða kristna trú og leggja okkar að mörkum við að gera heiminn að betri stað. Það er ekkert smá verkefni. En það verkefni vinnum við rétt eins og öll önnur. Einn dagur í einu. Eitt góðverk í einu. Eitt skref í einu.
Og þú Óskar ert svo lánsamur að þurfa ekki að taka þau skref einn því Guð, sem veit nákvæmlega hversu mörg hárin á höfði þínu eru, gengur með þér og þangað sækir þú styrk.
Kæri prófastur, Guð blessi þig og alla þína þjónustu og Guð blessi Suðurprófastsdæmi og öll þau er hér búa og starfa.
Dýrð sé Guði sem þekkir hvert hár á höfði okkar og blæs okkur hugrekki í brjóst.
Amen.