Að yfirgefa
Ég er nokkuð viss um að þú hafir einhverntíma upplifað þig yfirgefna eða yfirgefinn. Kannski var það þegar börnin fóru að heiman, eða þegar foreldrar þínir dóu. Kannski var það vegna þess að þú misstir einhvern í ótímabæru andláti eða vegna skilnaðar. Mögulega urðu vinslit, ósætti eða deilur til þess að þú upplifðir þig yfirgefna eða yfirgefinn.
Ég er líka nokkuð viss um að hvort sem þetta var af eðlilegum ástæðum sem voru hluti af gangi lífsins eða vegna vegn áfalls, þá hafi tilfinningin ekki verið góð.
Ég tel einnig líklegt að þú hafir einhverntíma þurft að yfirgefa fólk eða aðstæður og að það hafi verið erfitt. Kannski var það þegar þú fórst að heiman í fyrsta sinn eða þegar þú þurftir að koma þér út úr sambandi sem var vont fyrir þig. Kannski var það þegar þú fluttir úr sveitinni og seldir jörðina eða þegar þú skiptir um starf eða hættir að vinna sökum aldurs.
Það er erfitt að upplifa höfnun en það getur ekki síður verið erfitt að vera sá eða sú sem þarf að yfirgefa, að fara, að hætta.
Ég hef verið yfirgefin og upplifað höfnun. Ég hef líka þurft að koma mér út úr aðstæðum og sært einhvern um leið. Þessar aðstæður kalla ekki fram sömu tilfinningarnar en þær geta báðar verið sárar og erfiðar.
Við heyrðum áðan um fólk sem var yfirgefið enn eina ferðina af vini sínum. En við heyrðum líka um mann sem þurfti að fara frá fólkinu sem honum þótti vænt um og úr aðstæðunum sem hann þekkti.
Og það er sú hlið sem mig langar að skoða sérstaklega í dag. Mig langar að tala um það að þurfa að yfirgefa fólk eða aðstæður hvort sem er sjálfviljug eða nauðbeygð.
Hann skammaðist og fór
Tími Jesú er kominn og hann þarf að fara. Hlutverki hans sem manneskju á meðal okkar er lokið. Það síðasta sem Jesús gerir áður en hann yfirgefur lærisveinana, vini sína, er að hann skammar þá. Hann skammar þá fyrir að hafa ekki trúað því að hann væri upprisinn, svo peppar hann þá aðeins upp og síðan hverfur hann.
Ég get ímyndað mér að það hafi verið erfitt fyrir hann að þurfa að fara. Það er erfitt að þurfa að fara á meðan veislan stendur sem hæst. Kannski langaði hann ekkert að fara. Það er erfitt að yfirgefa þau sem okkur þykir vænt um og það er erfitt að þurfa að fara úr þeim aðstæðum sem við þekkjum.
Ég er ekkert viss um að hann hafi viljað vera leiðinlegur við vini sína. Við könnumst væntanleg mörg við það að þegar okkur líður illa þá brýst það oft út á óréttlátan hátt. Ég veit ekki hvernig það er með þig en þegar mér líður illa og álagið á mér er orðið of mikið þá bitnar það oftar en ekki á þeim sem mér þykir vænst um, þeim sem eiga það síst skilið.
Það er ekkert ólíklegt að hann hafi líka orðið fyrir vonbrigðum með viðbrögð margra vina sinna fyrir og eftir upprisuna og þurft að fá útrás fyrir þeim tilfinningum. Reyndar voru þetta svo sem engar venjulegar aðstæður og kannski ekki hægt að gera kröfu um að vinirnir bregðist rétt við á allan hátt. En, stundum fá tilfinningarnar bara að tala og skynsemin að fara. Og það er einmitt það sem ég held að hafi gerst þarna. Manneskjan Jesús leyfði sér bara að vera pirraður og sár því hann fann sig í aðstæðum sem hann langaði ekkert að vera í.
Hver skilur það ekki?
Hugrekki og þroski
Tími Jesú var kominn. Tími var kominn til þess að treysta þeim sem áttu að taka við, lærisveinunum. Okkur. Jesús varð að treysta því að hópurinn myndi standa sig vel án þess að hann væri stöðugt með þeim. Vinir hans voru myndugt fólk sem var tilbúið að taka við. Hann vissi að ef hann færi ekki og gæfi þeim tækifæri til þess að verða myndug og taka ábyrgð þá væri hætta á því að þau yrðu aldrei sjálfstæð og fullþroska.
Hann varð að fara og við erum þetta mynduga fólk sem getur tekið ákvarðanir án þess að Jesús sé með stöðug bein inngrip og andi ofan í hálsmálið okkar. Hann fór og gaf okkur eftir sviðið, svolítið eins og foreldrið sem leyfir barninu sínu að fara að heiman og sleppir tökunum hæfilega mikið til þess að barnið finni að það hefur nægan þroska til þess að stjórna lífi sínu á ábyrgan hátt. Barnið mun gera fjölda mistaka. Það veit foreldrið og það er vont. En manneskja sem aldrei fær að taka ábyrgð á lífi sínu verður ekki myndug. Það veit gott foreldri.
Það krefst hugrekkis að yfirgefa aðstæður til þess að gefa öðrum rými. Það krefst hugrekkis að yfirgefa aðstæður vegna þess að hlutverk okkar þarf að breytast. Það þarf þroska til þess að sjá að fólkið í kringum okkur getur staðið á eigin fótum og að við séum ekki þau einu sem geta tekið ábyrgð og haldið hlutunum gangandi.
En mikið hefur verið nöturlegt fyrir lærisveinana að hlusta á þessar skammir og horfa svo á eftir vini sínum, yfirgefa þá. Þeir vissu ekki betur en að hann væri endanlega farinn frá þeim. Það sem við vitum nú, og þeir komust að síðar, var að Jesús sendi þeim anda sinn og hjálpara. Hann gaf þeim hluta af sér og þannig fengu þeir kraftinn til þess að halda áfram.
Og þannig er Jesús með okkur í dag þó ekki sé hann í sama formi og við, sem manneskja. Það er vegna andans sem við erum hér í dag í kristinni kirkju að taka við orðinu og lofa Guð.
Við höfum valið
Ég lít á það sem hina fullkomnu traustsyfirlýsingu Guðs á okkur, að Jesús hafi farið á Uppstigningardag. Hann fór ekki vegna þess að Guði var sama um okkur. Hann fór vegna þess að Guð elskaði okkur og vildi gefa okkur tækifæri til að þroskast og taka ábyrgð. Guð vill gefa okkur val um það hvernig við viljum lifa lífi okkar. Guð vill ekki þvinga okkur til kærleikssambands við sig. Guð vill að við veljum það sjálf.
Við höfum valmöguleikana.
Við eigum traust Guðs.
Við erum myndugt fólk sem ávallt stendur til boða stuðningur Guðs sem er kærleikur, ef við viljum þiggja hann.
Nýtum þetta traust og þetta frelsi vel.
Veljum hið góða og leyfum Guði að vera með í lífi okkar og gera það enn betra. Treystum fólkinu í kringum okkur og gefum því rými til þess að þroskast og verða myndugt fólk. Þannig treystir Guð okkur.
Amen.