Ekki mjög trúuð
Nokkuð reglulega kemur til mín fólk, í kirkjuna, sem tjáir mér að það sé ekki
mjög trúað. Yfirleitt er þetta fólk sem leitar til prests vegna andláts
ástvinar eða vegna þess að það er að fara að gifta sig. Oft er hér um að ræða
fólk sem kemur í sálgæslu eða tekur þátt í einhverju starfi í krikjunni. Nokkuð
er einnig um að fólk sem er að láta skíra barnið sitt taki þetta fram.
Því er svo áhugavert að skoða hvað felst í þessum orðum: „Ég er ekki mjög trúuð/trúaður“ því þetta sama fólk leitar til prests og kirkjunnar vegna þess að það treystir prestinum og kirkjunni.
Þegar ég spyr fólk hvað það eigi við eða bíð eftir að það útskýri þetta nánar þá kemur oftar en ekki í ljós að fólk er kannski svolítið að afsaka sig eða í það minnsta að láta mig vita að það fari ekki oft í kirkju. Stundum er fólk að segja mér að það viti ekki mikið um trúna eða lífið í kirkjunni og oft er þetta leið fólks til þess að láta mig vita að það þýði ekkert fyrir mig að tala „himnesku“ við það því það skilji hana ekki.
Þegar við förum síðan að ræða þessi mál þá komumst við oftar en ekki að því að við trúum á ósköp svipaðan hátt. Munurinn er fyrst og fremst sá að ég lifi og hrærist í kirkjunni og því er orðfærið og trúarlífið mér tamara en það er fólkinu.
Ég held nefnilega að stundum haldi fólk að prestar líti einhvernvegin á sig sem heilagara fólk, að þeir séu með stöðug bænarorð á vörum, blessi fólk til hægri og vinstri og geti ekki sagt heila setningu á þess að nefna Guð. Sem sagt, tali himnesku.
Þau sem þekkja mig vita að þetta gæti ekki verið fjær sannleikanum. Ég gleymi oft að biðja, er yfirleitt lítið heilög í tali, þó ég reyni svona venjulega að vanda mál mitt, og kann ósköp lítið í himnesku. Og þetta á við um stóran hluta presta sem ég þekki. Þeir eru upp til hópa frekar „venjulegt“ fólk.
Trú og kirkja geta nefnilega verið ósköp hversdagsleg fyrirbæri.
Lítil trú
Allir textar þessa sunnudags fjalla um trú á einhver hátt enda er hægt að skoða trú út frá öllum mögulegum sjónarhornum. Gamlatestamentis textinn úr Hósea fjallar um það að það er hægt að treysta Guði. Í pistlinum í Hebreabréfinu er gerð tilraun til að skilgreina hvað trú er og í guðspjallinu hjá Lúkasi fáum við að heyra um lærisveinana sem biðja Jesú að auka trú sína. Þarna eru lærisveinarnir í hlutverki fólksins sem finnst það ekki trúa nógu mikið en þá langar til að trúin þeirra verði meiri og sterkari. Ég veit ekki hvort því sé þannig varið um öll þau sem láta vita að þau séu ekki mjög trúuð.
Jesús svarar þeim hálfundarlega, eins og svo oft. Hann gerir nánast lítið úr þessum kvörtunum þeirra og segir þeim að það þurfi ekki nema ofurlitla trú þess þess að flytja fjöll, eða tré í þessu tilviki.
Hvað ætli hann eigi við?
Er hann að segja þeim að trúin þeirra sé enn ómerkilegri en þeir héldu? Eða er hann að segja þeim að hætta kvarta því trú þeirra sé alveg nógu mikil og jafnvel mun meiri en þeir halda?
Já, ég held að það sé einmitt það sem Jesús á við. Ég held að hann sé að segja lærisveinunum, og okkur, að trúin sé ekkert sem hægt er að mæla, að við þurfum ekki að bera okkur saman við annað fólk. Hann er að segja að trú sem þú upplifir jafn litla og minnsta korn sem til er, geti verið svo sterk að hún geti gert stórkostlegt kraftaverk.
Miklu meira en nóg
Getur verið að ekkert okkar upplifi sig í raun mjög trúuð eða einu sinni nógu trúuð?
Ég
verð að viðurkenna að ég klappa mér aldrei á öxlina og segi: „mikið ertu, nú
trúuð“. Ekki veit ég hvort þú gerir það en kannski er það sammannlegt að við
upplifum okkur ekki vera nóg. Ekki nógu trúuð og ekki nógu allt mögulegt annað.
En ég trúi því að Guð sjái okkur sem alveg nóg og miklu meira en það.
Ég held að Guð vilji segja við þig í dag að þú sért alveg nógu trúuð/trúaður.
Ég held að Guð vilji segja við mig í dag að ég sé alveg nógu trúuð.
Trúir þú því?
Trú getur verið svo margt. Trú getur verið traust og trú getur verið von. Hún getur verið það að gera eitthvað í góðri trú.
Trú er í eðli sínu afar hversdagsleg.
Magn trúar mælist ekki í fjölda kirkjuferða eða lengd bæna þó það sé sannarlega gott að fara í kirkju og iðka trú. Trú mælist ekki í því hversu oft við sláum um okkur með trúarlegu eða guðfræðilegu orðfæri.
Trú getur einfaldlega verið það að treysta því að til sé eitthvað æðra og meira en við sjálf. Eitthvað sem við getum leitað til og lagt traust okkar á. Þetta fyrirbæri köllum við sem kristin eru, Guð. Trú getur falist í því að gera skyldu okkar, í því að vera manneskja sem er traustsins verð án þess óska eftir athygli eða sérstökum verðlaunum fyrir það. Þannig getur trúin birst í öllum verkum okkar sem unnin eru í kærleika og af góðum hug. Og þannig getur fas okkar og framkoma í garð annars fólks verið birting trúar.
Dýrð sé Guði sem gefur okkur næga trú og veit að við erum miklu meira en nóg.
Amen.