Þessa dagana berast reglulega fréttir af ótímabærum andlátum ungs fólks vegna ofskömmtunar. Ungt fólk eru ekki einu fórnarlömb ópíóðafaraldursins sem virðist vera að ríða yfir landið en þau eru þó allt of stór hluti þeirra sem ánetjast sterkum ávanabindandi morfínlyfjum. Við erum að missa fólkið okkar, börnin okkar.
Um allt land eru foreldrar sem búa við stöðugar áhyggjur vegna barna sinna og koma að lokuðum dyrum hvert sem þau leita því litla sem enga hjálp er að fá. Heilu fjölskyldurnar eru í heljargreipum vegna ástvinar sem er fastur í viðjum fíknar og mér segir svo hugur að í nærumhverfi okkar flestra séu fleiri að glíma við þennan vanda en okkur grunar. Tölur sýna okkur það en á síðasta ári voru 36% þeirra sem lögðust inn á Vog vegna ópíóðafíknar 25 ára og yngri og á fyrstu þremur mánuðum þessa árs létust 35 einstaklingar vegna þessa, hið minnsta.
Í kirkjunni förum við ekki varhluta af þessu ástandi þar sem við fylgjum bæði fólki sem er í neyslu og fjölskyldum þeirra. Þá kemur það gjarnan í hlut presta að jarðsyngja þau sem láta lífið vegna þessa.. Í kirkjunni höfum við gríðarlegar áhyggjur af ástandinu og sjáum glöggt að eitthvað þarf að gera.
Á presta- og djáknastefnu sem haldin var í Grensáskirkju á síðustu dögum aprílmánaðar samþykktu prestar og djáknar eftirfarandi ályktun.
„Presta- og djáknastefna sem haldin er í Grensáskirkju dagana 26.-28. apríl árið 2023 skorar á ríksstjórn Íslands, Landlæknisembættið og öll þau sem fara með ákvörðunarvald innan heilbrigðisþjónustunnar að róa að því öllum árum að færa þjónustu við þau sem þjást af fíknisjúkdómi til betra horfs. Það verður aðeins gert með því að auka fræðslu, vinna gegn fordómum og forgangsraða fjármunum til málaflokksins.
Stöðugar fréttir berast af dauðsföllum af völdum ópíóða og svo er komið að rætt er um ópíóðafaraldur. Allt of margt fólk lætur lífið vegna fíknisjúkdóms, langt fyrir aldur fram. Prestar og djáknar hafa ekki farið varhluta af því að þjónusta þau sem sjúkdómurinn hrjáir og aðstandendur þeirra í sjúkdómsferlinu og þegar dauðinn kveður dyra.
Presta- og djáknastefnan styður því við skaðaminnkandi og lífgefandi meðferðarúrræði, sem byggjast á kristnum gildum um virði og reisn hverrar manneskju.“
Þetta er mál okkar allra en stjórnvöld hafa þarna góða möguleika á að grípa inn í með forgangsröðun m.a. fjármuna og jafnvel lagabreytingum. Ég efast ekki eitt augnablik um að við viljum öll stöðva þennan faraldur strax. Þegar kórónuveiran herjaði á landið okkar og heiminn allan, snerum við bökum saman og gerðum allt sem í okkar valdi stóð til þess að útrýma veirunni, með forgangsröðun og lagabreytingum. Þessi faraldur er einnig skæður og hann mun aðeins versna ef ekkert verður að gert. Það er réttur hverrar manneskju að fá að lifa með reisn og það er hlutverk hverrar manneskju að koma náunganum til hjálpar þegar hann er í neyð. Það er því mín von að okkur takist að stöðva þennan faraldur hið fyrsta.
Guð blessi öll þau sem hafa misst ástvin vegna þessa og gefi okkur kjark, kærleika og visku til þess að koma í veg fyrir að faraldurinn haldi áfram að breiðast út.
Pistillinn birtist í Grafarvogsblaðinu í maí 2023