Skip to main content

Að lifa með okkur sjálfum

Eftir október 27, 2019Prédikanir

Að lifa með okkur sjálfum
Er ekki gott þegar allir hlutir eru á sínum stað? Þegar fólk er bara eins og venjulega og ekkert óvænt gerist? Jú það er best því þegar hlutirnir í kringum okkar breytast, þegar börnin verða fullorðin og fara að slíta sig frá foreldrunum, þegar vinkonan sem alltaf er til í að fara eitthvað með þér er allt í einu komin með kærasta og síðan fjölskyldu og vill bara vera heima, þegar þétti vinurinn breytir um lífsstíl og fer í ræktina og þegar vinkonan sem alltaf hefur sagt já fer að segja nei, þá þurfum við að breyta svo mörgu líka. Þá getur stundum verið svo erfitt að gleðjast með þeim sem tekst að breyta lífi sínu til betri vegar og fer allt í einu að ganga betur, sérstaklega þegar við upplifum að við verðum eftir. Þegar við fylgjum ekki með í breytingunum.

Eða er það kannski bara erfitt ef við erum ekki sátt við okkur sjálf og vitum að við þurfum að breyta einhverju en höfum ekki orkuna til þess?

Nú er verið að sýna þætti á Netflix sem heita „Living with yourself“ eða „Að búa með sjálfri/sjálfum þér“. Þessir þættir fjalla um Miles, mann sem er almennt ósáttur við líf sitt. Hann er þreyttur og orkulaus, gengur ekki nógu vel í vinnunni, er dapur og nennir ekki að leggja neitt á sig í hjónabandinu og er bara almennt búinn á því.

Einn daginn tekur hann eftir því að vinnufélagi hans, sem hafði verið álíka óspennandi og hann sjálfur, er gjörbreyttur. Hann er kraftmikill, hugmyndaríkur og almennt frábær. Hann spyr vinnufélagan hvað hafi gerst og hann segir honum frá heilsulind þar sem hann getur farið í stutta DNA meðferð og komið út sem nýr maður.

Miles ákveður að reyna þetta líka. Þegar þangað er komið er honum sagt að DNA:ið hans sé notað til að búa til útgáfu af honum sjálfum. Það sem hann veit ekki er að það er verið að klóna hann. Búa til nýja og miklu betri útgáfu af honum, mann sem lítur út eins og hann (bara aðeins flottari) og býr yfir hans minningum. En auðvitað fer eitthvað úrskeiðis. Nýji Miles gengur út af stofunni hress og flottur, meira að segja með betri sjón en áður en gamli Miles vaknar í gröf úti í skógi. Það átti sem sagt að drepa gamla Miles og grafa úti í skógi og láta nýja Miles taka yfir lífið hans. En gamli Miles vaknar og allt í einu eru komnar tvær útgáfur af honum.

Ég ætla ekki að segja frá allri atburðarrásinni en við getum reynt að ímynda okkur hvernig það er að lifa með betri útgáfu af okkur sjálfum.

Það sem hann dreymdi um var að fá einfalt „fix“. Hann vildi breytast án þess að þurfa að hafa fyrir því. Hann heldur að hann sé kominn með lausnina og hún kostar enga vinnu aðeins pening. En svo kemur í ljós að það var engin þess háttar leið í boð því að til þess að klónið hans, betri útgáfan fengi að lifa lífinu hans þurfti hann að deyja. Þegar upp er staðið var engin einföld og fljótleg leið til þess að bæta sig. Hann þurfti að hafa fyrir því sjálfur.

Að taka þátt í kraftaverkinu
Við erum á kraftaverkatímabilinu í kirkjuárinu og heyrðum enn eina kraftaverkasöguna lesna hér dag. Jesús læknar blindan mann.

Þetta gerist, samkvæmt þessari frásögn,  með einhverskonar kraftaverki þar sem munnvatn og leðja koma við sögu. Þegar Jesús læknar hann byrjar hann á því að skyrpa á jörðina og gera leðju úr munnvatninu og strjúka henni á augu hans. Að því búnu segir hann honum að fara að ákveðinni lind sem heitir Sílóam og þvo sér. Hann gerir það og fær sjónina.

Það er margt athyglisvert við þessa sögu og eitt af því er að Jesús snertir hann ekki bara og segir að nú sé hann læknaður. Hann er með alls kyns kúnstir og lætur síðan manninn taka við og ljúka lækningunni sjálfur. Hann, blindur maðurinn, þarf að ganga að vatninu og þvo sér.

Hvað ætli hefði gerst ef hann hefði ekki farið að ánni og þvegið sér? Ætli hann hefði ekki læknast? Ef hann hefði ekki nennt að sinna sínum hluta af vinnunni og viljað að þetta gerðist bara af sjálfu sér, hefði þá kannski ekkert breyst?

 Ég held að í dag vilji Guð segja okkur að við þurfum sjálf að taka þátt í kraftaverkunum í lífi okkar. Að ef við viljum að eitthvað breytist þá er Guð tilbúið að hjálpa okkur en við þurfum að vinna vinnuna. Guð gefur okkur forsendurnar en það er okkar að gera það besta úr þeim.

Viðbrögðin
Þessi maður fylgir orðum Jesú og vinnur vinnuna. Hann fer og þvær sér og hann breytist. Hann er ekki lengur blindi maðurinn, þessi sem alltaf situr á sama stað og betlar. Hann er breyttur og getur nú tekið fullan þátt í samfélaginu þar sem hann hefur hingað til þurft að láta sér nægja að sita úti á jaðrinum. Og þetta þykir fólkinu í kringum hann afar óþægilegt. Fólk fer að efast um hvernig þetta gerðist og hann þarf stöðugt að vera að endurtaka söguna. Fólk vill vita hver gerði þetta, hvernig það gerðist og hvar Jesús sé núna. Foreldrar hans eru meira að segja kallaðir til og spurðir út úr. Hann sem hingað til hafði verið blindi betlarinn var nú orðinn annar og fólkið í kringum hann þurfti að breyta viðhorfi sínu til hans. Það þurfti að umgangast hann á annan hátt, það þurfti sjálft að breytast því allt var ekki lengur eins og það hafði alltaf verið. 

Að lifa með okkur sjálfum
Sannleikurinn er sá að þrátt fyrir að við breytumst, þroskumst og virðumst vera orðnar nýjar manneskjur, þá erum samt alltaf þau sömu. Við verðum aldrei nýjar manneskjur sama hvað gerist því það er aðeins til ein útgáfa af okkur. Þess vegna þurfum við ekki að óttast þó fólkið í kringum okkur þroskist eða breyti einhverju í lífi sínu og fái þannig önnur hlutverk í okkar lífi. Þau eru enn hin sömu. Og með sama hætti getum ekki búist við því að við verðum aðrar manneskjur þó við tökum okkur á og breytum einhverju til batnaðar. Við sitjum alltaf uppi með okkur sjálf eins gamli Miles sem vaknaði upp í skóginum. Blindi maðurinn var áfram hann sjálfur. Það sem breyttist var að Jesús hafði hjálpað honum og komið honum af stað með að breyta því sem þurfti að breytast.

Með sama hætti gefur Guð okkur öllum það sem við þörfnumst til þess að við getum haldið áfram með kraftaverkin í okkar lífi. Þessi kraftaverk þurfa ekki að vera stór eða merkileg en það er miklvægt að vita að þegar við þurfum að breyta einhverju þá getum við það því Guð hjálpar okkur að hefja vinnuna með því að gefa okkur forsendurnar.

Vissulega er margt í okkar lífi sem er ekki á okkar valdi og við þurfum að hafa vit til þess að greina þar á milli en það getur verið á okkar valdi hvernig við bregðumst við lífinu og því sem við ráðum ekki við. En það er líka svo margt sem við höfum vald yfir og ef við treystum því að Guð gefi okkur forsendurnar og við reynum að hlusta á leiðsögn og vilja Guðs þá getum við þroskast, lært og reynt að bæta okkur í því sem við getum, og orðið enn betri manneskjur.

Dýrð sé Guði sem hjálpar okkur að vinna kraftaverk í okkar eigin lífi.

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju 27. október, 19. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Jóh. 9: 1-11.