Skip to main content

orð eða Orð – Dagur Orðsins í Grafarvogskirkju

Eftir nóvember 19, 2017Prédikanir

Jólabókaflóð
Við eigum mörg hugtök í íslensku sem ég er ekki viss um að sé til í nokkru öðru tungumáli og eitt þeirra er mér hugleikið þessa dagana. Það er hugtakið “jólabókaflóð”. Í þessu orði felst svo dásamleg myndlíking sem ég held að við tengjum öll við á einhvern hátt. Kannski sjáum við bækurnar fyrir okkur flæða yfir landið eins og snjóinn. Kannski sjáum við þær flæða undan jólatrénu eða út úr bókabúðunum.

Svo lengi sem ég man eftir mér hef ég óskað mér bóka í jólagjöf og ég man ekki eftir bókalausum jólum fram að þessu. Ég er reyndar farin að hlusta mikið á hljóðbækur því sú iðja gerir mörg hversdagsverkin innihaldsríkari. En fyrir jólin drekk ég í mig bókatíðindin af mikill ákvefð og vel mér bækurnar sem mig langar mest að lesa. Og fátt þykir mér jólalegra en að fara á upplestur úr nýjum íslenskum bókum á aðventunni. Mér þykir líklegt að mikið af Íslendingum tengi við þetta.

Það er oft sagt að við séum bókaþjóð og reglulega heyrum við í fjölmiðlum að fólk hafi áhyggjur af því að við lesum minna og að læsi barna hafi minnkað, að of mörg börn geti ekki lesið sér til gagns. Ég held að það sé gott að við höfum þessar áhyggjur, að við látum okkur þetta varða. Því þrátt fyrir að börnin verði læs á margt annað, sem einnig er afar gagnlegt í heimi tölvuleikja og internets, þá opnast okkur nýr heimur þegar við getum farið á vit ævintýra og annarra vídd með hjálp góðrar bókar, þar sem við þurfum að nýta okkar eigin ímyndunarafl.

 Lifandi Orð
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. segir í upphafssetningu Jóhannesarguðspjalls sem ég las hér áðan. Við könnumst mörg hver við þessi orð úr jólatextanum sem lesinn er í kirkjum landsins á jóladag.

Samkvæmt kristninni lítum við svo á að Jesús Kristur sé holdtekning orðs Guðs. Að Guð hafi komið því til skila hvað Guð er með því að verða manneskja. Þannig varð þetta orð eða þessi boðskapur kærleikans lifandi. Þetta hljómar ótrúlega. Þetta hljómar jafn ótrúlega og að segja að Biblían sé orð Guðs enda trúum við fæst því að Biblían sé beinn boðskapur frá Guði sem okkur beri að taka bókstaflega í einu og öllu. Það gengur heldur ekki upp því Biblían er full af mótsögnum.

Biblían er safn bóka og sagna sem tjá okkur reynslu fólks af guðdómnum í gegnum tíðina. Í henni er að finna óteljandi myndlíkingar um Guð. Þar eru falleg ævintýri, ótrúlegar bardagasögur, ljótar sögur sem enda illa. Það er að finna erótísk ljóð, fantasíur, bréf sem voru rituð fyrir næstum tvö þúsund árum og svo sögur af Jesú Kristi. Það segir sig sjálf að þessi bók er ekki orð Guðs hreint og ómengað. En þessi bók er vitnisburður fólks um upplifun þess af Guði, af Jesú og um það hvernig það er að vera manneskja í heimi sem bæði er svo brotin og svo fullkominn.

 Bókmenntir
Á degi íslenskrar tungu megum við vera stolt af því að Íslensk tunga var meðal 20 fyrstu tungumála veraldar sem Biblían var þýdd á. Það er því ekki að undra að við köllum okkur bókaþjóð.

Við höfum fjarlægst Biblíuna í dag og oft er hún afgreidd sem ótrúlegur boðskapur um eitthvað yfirnáttúrulegt sem við hljótum að vera of skynsöm til þess að trúa. En þegar við leggjum í að lesa þessa merkilegu bók eða safn bóka, sem hún er, með nokkuð opnu hugarfari, sem þarf ekki að vera í mótsögn við skynsemina, kemur í ljós að hér er um stórkostlegar bókmenntir að ræða. En til þess að fá eitthvað meira út úr þessari bók verðum við að hafa hæfileikann og getuna til þess að túlka “abstrakt”, í stað þess að skilja allt einungis bókstaflega.

Og það á reyndar við um lestur flestra bókmennta. Það að geta séð hið “abstrakta# í textanum, sett sig inn í myndlíkingarnar og drukkið í sig fegurðina auk þess að lesa söguþráðinn, gefur okkur svo miklu stærri fjársjóð en annars.

Sögur og ljóð geta nefnilega frelsað okkur frá því að þurfa að túlka allt bókstaflega. Sögur og ljóð hafa þann eiginleika að geta víkkað út hjartað okkar og opnað sálina, jafnvel upp á gátt.

Í dag hefur sálmur eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur, heiðursgestinn okkar, verið sunginn tvisvar. Hann var sunginn í dagskránni sem var hér fyrir messu og svo nú fyrir prédikun. Þetta er einn af mínum uppáhaldssálmum. Hann er svo ríkur af myndlíkingum og orðakonfektið er ótrúlegt. Þarna er loksins kominn bitastæður sálmur í sálmabókina okkar um efann. Um efann, vanmáttinn og vonina og sem er um leið svo óendanlega kraftmikill. Þegar ég hlusta á þennan sálm eða syng hann þá upplifi ég að hann gefi mér leyfi til að efast og að það sé allt í fína lagi. Því er þessi sálmur svo mikilvægur í flóru okkar annars fjölbreytta sálmasafns.

Dagur Orðsins
Í titli þessa dags, sem við höldum hátíðlegan í Grafarvogskirkju á hverju ári í tengslum við Dag íslenskrar tungu, “Dagur Orðsins” fellst orðaleikur og því ritum við „Orðið“ sem stórum staf. Þessi dagur er tileinkaður hinu ritaða orði, skáldskapi og skáldum. En hér er einnig vísað í orð Guðs sem varð hold. Hið lifandi Orð sem er Jesús Kristur.
En getur orð lifnað við? Getur orð orðið manneskja?

Já, orð getur sannarlega lifnað við. Góð og mikilvæg orð lifa. Sögur og ljóð sem hafa áhrif á okkur og hitta okkur í hjartastað eða fá okkur til að hugsa, lifa áfram. Þannig eignast orð, sem rituð eru í bók, flutt opinberlega eða rituð á veraldarvefinn, sitt eigið líf. Höfundurinn hefur ekki fullt umráð yfir þeim lengur.

Það er því kannski ekkert ótrúlegra að Orð Guðs geti lifað í manneskju, að orð Guðs taki á sig hold og verði manneskja. Því Orð Guðs er fyrir þeim sem á það trúa, raunverulegt um leið og það er óraunverulegt og órætt. Orð Guðs getur orðið lifandi í þér og mér og allt í kringum okkur.

Því það fyrirbæri sem ég kalla Guð og trúi á er krafturinn og mátturinn í því góða allt í kringum okkur. Orð Guðs er því í mínum huga ástin og lífskrafturinn sem Jesús birti okkur með sínu lífi og við getum alltaf sótt í.

Megi þessi lífskraftur flæða um okkur öll eins og fallegt ævintýri eða ögrandi ljóð.

Amen.