Skip to main content

Ávarp við setningu presta- og djáknastefnu í Seltjarnarneskirkju 2025

Eftir apríl 28, 2025Greinar, Pistlar


„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð“. (Fil. 4.4)

Djáknar, prestar, biskupar, dómsmálaráðherra og aðrir góðir gestir, hjartanlega velkomin á presta- og djáknastefnu.  

Yfirskrift synodus í ár er sótt í Filipíbréfið sem er vel við hæfi á gleðidögum og ég bið þess að okkur takist, með hjálp Guðs, að láta gleðina ríkja í okkar hópi á þessari presta- og djáknastefnu. 

Þakkir
Ég vil byrja á að þakka ykkur öllum sem hafið tekið þátt í undirbúningi þessarar presta- og djáknastefnu. Ég þakka handbókarnefnd fyrir góð störf og mikilvæg og fyrir undirbúning messunnar hér í upphafi. Þá vil ég þakka þeim sem þjónuðu hér í dag sóknarnefndarfólki, prestum, djáknum, organista, fiðluleikara, kór og Seltjarnarnessöfnuði fyrir einstakar móttökur. Við höfum fundið fyrir gestrisni ykkar frá því við hófum undirbúning stefnunnar fyrir nokkrum mánuðum. Það hefur verið ljúft að skipuleggja stefnuna með sr. Bjarna Þór, sóknarnefnd og starfsfólki /safnaðarins. Ég vil þá þakka bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar fyrir rausnarlega móttöku sem boðið verður til hér á eftir. Hér eru engar hindranir heldur eingöngu lausnir. Það er dýmætt að sjá hversu vel metin kirkjan er hér á Nesinu, að hún eigi sér augljósan stað í hjörtum fólks og sé hluti af daglegu lífi Seltirninga.  

Síðast en ekki síst vil ég þakka ykkur kæru prestar-, djáknar, prófastar, vígslubiskupar, allt starfsfólk Biskupsstofu og kirkjufólk um allt land fyrir gefandi samstarf og hlýjar móttökur er ég tók við embætti biskups Íslands. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs og samvinnu og nánari kynna.
 

Efni Synodus
Nú er vinna við nýja Handbók Þjóðkirkjunnar langt komin ef allt gengur eftir og hefur sú vinna nú staðið yfir í um þrjú ár. Handbókarnefnd hefur unnið gríðarlega mikið starf og með það lýðræðislegum hætti að við sem sótt höfum presta- og djáknastefnu undanfarin ár höfum fengið tækifæri til þess að hafa áhrif á efni Handbókarinnar.  

Nú hafa fjögur messuform verið send út auk athafna og annars efnis og söfnuðir hafa verið hvattir til þess að prófa formin. Fjölmörg ykkar hafa þegar látið verða af því og ég hvet ykkur sem ekki hafið byrjað enn að láta á það reyna. Í kjölfarið gefst ykkur þá tækifæri til þess að koma áliti ykkar á framfæri með rökstuðningi. Okkur á sjálfsagt eftir að þykja ýmislegt óþjált til að byrja með en þannig er það yfirleitt þegar við skiptum út textum sem eru okkur svo handgengir að við getum nánast farið með þá í svefni.  

Að baki þessa efnis liggur mikil guðfræðileg vinna auk þess sem nefndin tekur tillit til kröfu nútíma samfélags um að talað sé mál allra kynja í Þjóðkirkjunni. Þá málnotkun styð ég heilshugar því ég tel ákaflega mikilvægt að þau sem koma til kirkju upplifi að þau séu velkomin og ávörpuð. Við munum fá gott rými til þess að vinna með handbókarnefnd og ræða handbókina á morgun.  

Á miðvikudaginn mun prestastefna leggja fram til samþykktar ályktun þess efnis að presta- og djáknastefna samþykki þá meginstefnu í messuformum Handbókar Þjóðkirkjunnar. Stefnt er að því að presta- og djáknastefna 2026 samþykki nýja Handbók sem þá verði lögð fyrir kirkjuþing til kynningar sama haust.  

Samhliða vinnu við handbókina er að hefjast endurskoðun á Innri samþykktum Þjóðkirkjunnar. Sr. Arna Grétarsdóttir og dr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir hafa tekið þá vinnu að sér en þær munu vera í þéttu samtali við handbókarnefnd og leita til ýmissa ráðgjafa. Ef þið viljið koma á framfæri skoðunum á innri samþykktum er velkomið að hafa samband við þær.  

Á morgun munu fulltrúar handbókarnefndar fara í stuttu máli yfir notkun skrúðans og kirkjulitina en það gott að fá reglulega upprifjun um skrúðann þar sem mikilvægt er að við notum litúrgísk klæði með réttum hætti og vitum hvers vegna við klæðumst þeim. Þá höfum við nú tekið í notkun bláa litinn og þann rósbleika en ég vísa til greinagerðar frá handbókarnefnd þess efnis sem ég sendi prestum, djáknum og organistum 20. febrúar síðastliðinn. 

Að því loknu gefst öllum tækifæri til þess að tjá sig í stuttu máli um hempuna, um það sem mælir með notkun hennar og ef eitthvað mælir gegn henni. 

Áður en við komum saman á gleðistund í Biskupsgarði á morgun mun Heimir Hannesson samskiptastjóri kynna fyrir okkur nýja heimasíðu og nýtt útlit á öllu efni sem birtist frá Þjóðkirkjunni. Heimasíðan verður ekki opnuð fyrr en í lok sumars en prestar og djáknar fá þó aðgang að henni fyrr svo að þið getið kynnt ykkur breytingarnar til hlítar áður en síðan verður opnuð með viðhöfn. 

Á miðvikudaginn mun formaður samtakanna ´78 bjóða upp á sérsniðna kynningu fyrir presta og djákna. Þessi kynning er hluti af samtali og samvinnu biskups Íslands og Samtakanna ´78 sem er liður í því sáttarferli sem nú stendur yfir á milli Þjóðkirkjunnar og hinseginsamfélagsins. Annar liður í þessu er að boðið verður upp á námskeið á vegum Samtakanna í öllum prófastsdæmum í vetur.  

 

Samskipti og sýnileiki
Eitt af því sem ég hef lagt mikla á þessa fyrstu mánuði í embætti biskups er samskipti og sýnileiki, bæði kirkjunnar og biskups. Ég hef lagt áherslu á að eiga góð samskipti við fjölmiðla og víðar úti í samfélaginu með því að mæta í viðtöl og þætti bæði í blöðum, útvarpi og sjónvarpi og með því að auka sýnileika kirkjunnar á samfélagsmiðlum.  

Þetta verkefni hefur gengið vonum framar og nú er svo komið að óskað er eftir þátttöku biskups og presta og kirkjufólks í fjölmörgu er tengist dægurmenningu þjóðarinnar auk þess sem óskað er eftir áliti kirkjunnar á málum sem eru ofarlega á baugi í samfélaginu í síauknum mæli og svo mjög að við önnum vart eftirspurn. Stór liður í þessu var að ráða samskiptastjóra, sem er Heimir Hannesson og samfélagsmiðlastjóra, Tinnu Miljevic til starfa. Þau hafa staðið vaktina í þessum málum og staðið sig ákaflega vel. 

Ég hef einnig lagt áherslu á samskipti inn á við þ.e. við ykkur sem þjónið í kirkjunni, starfsfólk og sóknarnefndir eftir bestu getu. Það hef ég gert með því að reyna að auka upplýsingagjöf frá Biskupsstofu, heimsækja söfnuði, eiga samtöl við þau sem óska eftir því og með því að vera reglulega með skrifstofu biskups í öllum landshlutum. Þannig hef ég náð að tengjast kirkjufólki vítt og breitt um landið. Þetta mun ekki koma í stað vísitasía heldur mun ég taka hlé frá landsbyggðarskrifstofunni til þess að vísitera þegar þar að kemur.  

Ýmislegt fleira er áformað í þessum málum því að mínu mati er eitt af brýnni verkefnum kirkjunnar nú að hlúa vel að þjónum hennar. 

Erlend samskipti
Þjóðkirkjan er hluti af kirkju heimsins  og nú er mikilvægt sem aldrei fyrr að við tökum þátt í því að standa vörð um kristin gildi mannúðar og mildi og réttindi þeirra sem minnst mega sín í okkar nærsamfélagi  og í hinni alþjóðlegu  kirkju. 

Við erum aðilar að Alkirkjuráðinu, Lúterska heimssambandinu, Evrópuráði kirkna og fleiri alþjóðlegum stofnunum og samtökum sem eru málsvarar kristni í heiminum. Í því samhengi er mikilvægt að við nýtum okkar atkvæðisrétt. Rödd þeirra sem nota kristna trú til aðgreiningar og jafnvel til þess að rökstyðja mannréttindabrot er að finna út um allan heim.  

Kirkjan í heiminum tekur  sífelldum  breytingum og rödd okkar og sá mannskilningur sem við stöndum fyrir er mikilvægur og skiptir mál. Við verðum að átta okkur á því að þær breytingar sem eiga sér stað erlendis munu einnig ná til okkar hér á Íslandi.  

Prestar og djáknar
Kæru prestar og djáknar. Ykkar þjónusta er dýrmæt og hún er mikilvæg. Meiri hluti íbúa þessa lands áttar sig á því. Það sýna nýjar tölur um traust þjóðarinnar til Þjóðkirkjunnar. Traustið hefur ekki hækkað jafn mikið frá því mælingar hófust fyrir tveimur áratugum. Það er ykkur, og okkur öllum sem þjónum í kirkjunni að þakka. Það er kirkjufólki að þakka. 

Mín reynsla er sú að prestsþjónustan sé besta starf sem hægt er að hugsa sér fyrir manneskju sem hefur köllun til þeirrar þjónustu. Ég efast ekki um að hið sama eigi við um djáknaþjónustuna. En þessi störf eru einnig gríðarlega erfið og þung á köflum. Við vitum aldrei hvenær áföll ríða yfir og því verðum við að skipuleggja vinnutímann og þjónustuna vel og bera virðingu fyrir frítíma okkar og annarra. Þá er svo ótal margt annað sem getur valdið álagi og ég veit að mörg ykkar upplifið ykkur óvarin á stundum. Því er svo mikilvægt að þið finnið að þið eruð ekki ein heldur hluti af stærra samhengi. Þið eruð hluti af Þjóðkirkjunni sem er annt um þjóna sína og er til staðar þegar á móti blæs. Prófastarnir eru margir með mikla reynslu í að styðja presta og djákna sem lenda í erfiðleikum í starfi og þeirra hlutverk er að styðja ykkur og aðstoða.  

Þá stendur öllum prestum og djáknum, sem eru í ráðningarsambandi við Þjóðkirkjuna, til boða að sækja handleiðslu. Annars vegar er í boði hóphandleiðsla hjá Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar og hins vegar er hægt að sækja um að fá allt að fimm tíma í einkahandleiðslu hjá Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustunni eða hjá aðila sem þið sjálf kjósið. Einnig mun nú standa til boða að sækja svokallaða „andlega handleiðslu“ hjá Fjölskyldu og sálgæsluþjónustunni.  

Endurskoðun þjónustunnar
Nú stendur yfir endurskoðun vígðrar þjónustu kirkjunnar á landinu öllu. Það blasir við skortur á prestum í þjónustuna á ýmsum stöðum á landsbyggðinni og brýnt er að bregðast við því. Ein leið er að hagræða þjónustunni, auka fjölbreytni hennar og kanna um leið hvort mögulegt sé að bæta kjör og aðstæður presta á fámennum stöðum með einhverjum hætti til þess að fá frekar fólk til þjónustu þar. 

Einnig er mikilvægt að kynna vel guðfræðinámið og lyfta því upp hversu áhugavert preststarfið er. Vonir standa til þess að tillögur verði tilbúnar þegar kirkjuþing kemur saman í haust og mun biskupafundur leggja þær fram. Þessar tillögur eru unnar í breiðu samstarfi við vígða þjóna og kirkjufólk vítt og breitt um landið og ég geri ráð fyrir að mörg ykkar hafið þegar tekið þátt í þeim með einhverjum hætti. Mér þykir líklegt að lykilhugtakið í nýjum tillögum verði „sveigjanleiki“. 

Ráðningar og breytingar
Í messunni áðan voru lesin upp nöfn þeirra sem vígðust, fengu lausn frá embætti sökum aldurs eða létust á Synodusárinu. Töluverðar breytingar urðu þegar prestar færðu sig til auk þess sem fjölmargir prestar og nokkrir djáknar hafa annast afleysingaþjónustu á umliðnu Synodusári. Nú í sumar munu nokkrir guðfræðikandídatar útskrifast sem lokið hafa starfsnámi á vegum Þjóðkirkjunnar og væntanlega munu þau sækja um eitthvað að þeim stöðum sem nú hafa verið lausar í nokkurn tíma.  

Nú hefur staðið yfir vinna við endurskoðun á starfsnámi presta og djákna og er hún á lokametrunum. Ég vil þakka starfsnámsnefndinni fyrir vel unnin störf. Niðurstaða þeirrar vinnu er að starfsnámið er nú komið í traustan farveg þar sem bæði nemar og handleiðarar fá góða þjálfum. Ein nýlunda er sú að prestar og djáknar sem taka að sér starfsnema í handleiðslu skuldbinda sig einnig til handleiðslu þeirra fyrsta árið eftir vígslu. Ég er sannfærð um að þessi mikla vinna muni skila sér í enn betur þjálfuðum prestum og djáknum. Þau sem halda utan um starfsnám presta og djákna fyrir hönd biskups eru Magnea Sverrisdóttir djákni, sr. Eva Björk Valdimarsdóttir biskupsritari og Brynja Dögg Guðmundsdóttir Briem lögfræðingur á mannauðssviði Biskupsstofu.  

Fjölmennasta fjöldahreyfingin
Þjóðkirkja Íslands er fjölmennasta fjöldahreyfing landsins. Í fjölmörg ár höfum við heyrt fréttir frá Þjóðskrá um að fækkað hafi í Þjóðkirkjunni og hlutfall meðlima lækki stöðugt. Þetta er satt en þó ekki. Nú berast okkur fréttir um að undanfarna mánuði hafi fleiri skráð sig í Þjóðkirkjuna en úr henni. Þetta er þó ekki nóg til þess að raunveruleg fjölgun verði þar sem svo stór hópur félaga hverfa ár hvert vegna andláta.  

 Þjóðkirkjan er tæplega 230 000 manna trúfélag. Það er stórt, auk þess sem mun fleiri sækja þjónustu Þjóðkirkjunnar en eingöngu þau sem eru skráðir félagar. Okkur ber að þjóna öllum og það gerum við. Þegar kemur að tölum um hversu stórt hlutfall þjóðarinnar tilheyrir Þjóðkirkjunni þá er fullkomlega ómarktækt að bera þær tölur saman við fyrri ár þar sem samsetning íbúa þessa lands hefur breyst mikið. Nú eru yfir 20% íbúa landsins ekki fæddir á Íslandi og tilheyrir stærsti hlutinn öðrum kristnum kirkjum eða öðrum trúfélögum. Hlutfall Þjóðkirkjumeðlima er því nær 80 prósentum heldur en 55 prósentum ef við miðum við þau sem eru fædd á Íslandi. 

Nokkrar skýringar eru á fækkun í Þjóðkirkjunni sem við ættum að geta brugðist við.  

  1. Ein skýring er sú að þegar fólk flytur úr landi er það sjálfkrafa skráð úr Þjóðkirkjunni en það er ekki skráð inn í hana á ný þegar það flytur aftur til landsins.  
  1. Börn sem fæðast erlendis og eiga foreldra sem bæði voru í Þjóðkirkjunni áður en þau fluttu eru ekki skráð sjálfkrafa í Þjóðkirkjuna er þau flytja til Íslands.  
  1. Árið 2013 varð sú breyting á skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög að barn fylgir skráningu foreldra eingöngu ef báðir foreldrar eru skráðir í sama trúfélag. Að öðrum kosti stendur barnið utan trúfélaga. Þetta hefur leitt til þess að fækkun meðlima í Þjóðkirkjunni er fyrst og fremst á meðal barna 0-17 ára. Ég efast stórlega um að sá aldurshópur hafi farið á skra.is og skráð sig úr kirkjunni.  

Við verðum að bregðast við þessu og erum nú þegar byrjuð á því. Þetta er verkefni við þurfum öll að sameinast um. Þjónandi prestar og djáknar geta fylgst með skráningum þeirra er sækja þjónustu kirkjunnar og boðið fólki að skrá sig í kirkjuna ef það er ekki skráð nú þegar.  Þá er hægt að fara í átak við að fjölga félögum og ræða við Þjóðskrá um skráningarmál. Fyrst og fremst er okkar verkefni þó að vera fyrirmyndarkirkja sem tekur hlutverk sitt alvarlega, að boða fagnaðarerindið og þjóna fólki þannig að fólki langi að tilheyra Þjóðkirkjunni. 

Við megum ekki við frekari fækkun í ljósi þess að ríkið hefur ekki skilað fullum sóknargjöldum undanfarin sextán ár. Það hefur leitt til þess að erfitt er að sinna viðhaldi stórs hluta þeirra 250 kirkna sem eru í eigu Þjóðkirkjusafnaða og það kemur einnig niður á þjónustu safnaðanna. Við bíðum nú niðurstöðu nefndar á vegum Dómsmálaráðuneytisins sem vinnur að endurskoðun sóknargjalda og vonandi verður sú niðurstaða jákvæð fyrir Þjóðkirkjuna. 

Framtíðin er björt
Kæru vinir. Framtíðin er björt. Það er meðbyr með Þjóðkirkjunni og starfið blómstrar. Mannauðurinn er mikill og meirihluti íbúa þessa lands telja Þjóðkirkjuna mikilvæga. Okkur ber að taka því alvarlega.  

En til þess að vera fyrirmyndarkirkja þarf okkur öllum að líða vel í þjónustunni. Við þurfum að upplifa að þjónusta okkar sé metin, ekki aðeins úti í samfélaginu heldur einnig innan Þjóðkirkjunnar. Við ættum því að vera enn duglegri að gleðjast upphátt með hvert öðru þegar vel gengur og bjóða starfssystkinum okkar stuðning þegar á móti blæs.  

Þegar vel gengur í einum söfnuði þá gengur í vel hjá okkur öllum. Við erum ekki ein að sá akurinn, hvert og eitt fyrir sig heldur erum við hluti af stærra samhengi.  Við erum hluti af Þjóðkirkjunni, við erum hluti af kristinni kirkju í heiminum og við erum hluti af Guðs ríki.  

„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur, verið glöð.“ 

Kæru vinir, megi gleði og vinsemd ríkja á meðal okkar á þessari Synodu og og ávalt í þjónustu okkar og lífi öllu. Guð blessi Þjóðkirkjuna, þjóna hennar og okkur öll. 

Prestastefna 2025 er sett.