Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2024
Nýr biskup
Nú stendur fyrir dyrum að kjósa nýjan biskup í þjóðkirkjunni. Niðurstaðan í biskupskjöri verður ljós á gleðidögum kirkjunnar, á milli páska og hvítasunnu ef allt gengur eftir. Prestar og djáknar hafa valið þrjú úr hópi presta sem kosið verður á milli og ég þakka þann mikla stuðning og traust sem starfssystkini mín hafa sýnt mér. Á komandi vikum gefst okkur rými til þess að ræða framtíð kirkjunnar og ólík áhersluatriði biskupsefna, en ég vil ekki síður nýta þennan tíma til þess að hlusta á vilja þjóðkirkjufólks.
Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess, fyrir þau sem ekki þekkja til mín að ég hef verið farsæll prestur í Þjóðkirkjunni og Sænsku kirkjunni um tveggja áratuga skeið. Ég hef þjónað sem prestur og sóknarprestur í fjölmennasta söfnuði landsins undanfarin sextán ár og hef því víðtæka reynslu sem leiðtogi. Þá hef ég setið á kirkjuþingi tvö kjörtímabil og gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum, verið ritari og varaformaður Prestafélags Ísland í mörg ár auk fjölmargra annarra nefnda og stjórnarstarfa fyrir Þjóðkirkjuna og félög er henni tengjast. Ég hef lokið framhaldsnámi í prédikunarfræðum frá Svíþjóð og Bandaríkjunum. Faglega séð er ég því vel undirbúin undir hlutverk biskups Íslands.
Hlutverk biskups
Hlutverk biskups er fyrst og fremst að vera leiðtogi Þjóðkirkjunnar og sameiningartákn hennar. Biskup er hirðir hirðanna og hefur það hlutverk að styðja, efla og uppörva þjóna kirkjunnar svo að þau geti, á sem bestan hátt, sinnt sinni þjónustu við fólkið í landinu.
Samkvæmt nýsamþykktri stjórnskipan Þjóðkirkjunnar er að finna skilgreiningu á biskupsembættinu sem sótt er í lög frá alþingi um Þjóðkirkjuna frá 2021: „Biskup fer með yfirstjórn Þjóðkirkjunnar í kenningarlegum efnum, gætir einingar í kirkjunni og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu“. Þessi ný samþykkta stjórnskipan kemur í kjölfar þeirra gríðarlegu breytinga sem hafa átt sér stað í Þjóðkirkjunni á undanförnum árum. Kirkjan hefur nú tekið við öllum sínum málum frá ríkinu og hefur því fullt umráð yfir ráðstöfun sinna fjármuna. Mér líst vel á hið nýja skipulag sem ég tel að hafi verið nauðsynlegt og treysti mér vel til þess að vinna samkvæmt því. Skipulagið er að ýmsu leyti líkt því fyrirkomulagi er ríkir í söfnuðum landsins og verkaskiptingu þeirri sem er viðhöfð á milli sóknarprests og sóknarnefndar.
Kirkjan er engin hornkerling
Eitt stærsta verkefni nýs biskups á komandi árum verður að leiða kirkjuna í breyttu samfélagi nútímans og halda áfram að búa henni góðan stað í umhverfi þar sem ekki er lengur litið á kirkjuna sem sjálfsagða. Staða kirkjunnar í samtímanum hefur breyst hratt á undanförum 15 árum af ólíkum ástæðum. Samfélagið hefur orðið ríkara og fjölbreyttara þar sem fólk frá öðrum löndum, öðrum trúarbrögðum eða kirkjudeildum hefur sest hér að. Sífellt fleiri Íslendingar velja að vera utan trúfélaga og oft á tíðum hefur sú ákvörðun ekkert með trú að gera, heldur vill fólk ekki tilheyra skipulögðum trúarbrögðum eða trúfélagi. Kristinfræði er kennd í minna mæli í grunnskólum sem leiðir til þess að ungt fólk þekkir ekki sögur Biblíunnar og veit þar af leiðandi minna um trú og menningu þjóðarinnar. Þetta er staða sem kirkjunni ber að taka alvarlega. Kirkjan hefur á ýmsan hátt færst til hliðar. Hún fær minna rými en hún gerði í samfélaginu áður fyrr. Að hluta til er það eðlilegt í samfélagi fjölbreytileikans en það kemur þó ekki veg fyrir að kirkjan geti staðið styrkum fótum og tekið sitt rými því kirkjan er engin hornkerling.
Hlutverk mitt á komandi árum, verði ég kjörin, er að leiða kirkju sem er í sókn, kirkju sem tekur sjálfsagt rými í samfélaginu okkar og er leiðandi afl þegar kemur að trúarlegum- og siðfræðilegum málefnum. Ég vil leggja áherslu á að leiða kirkju sem lætur sig mannréttindi allra varða í anda Jesú Krists og um leið lyfta upp öllu því góða starfi, sálgæslu og trúariðkun sem söfnuðir landsins bjóða upp á.
Samfélagið í kirkjunni
Annað stórt og mikilvægt verkefni á komandi árum verður að vinna að því að þétta raðir presta, djákna, starfsfólks safnaða og sóknarnefnda kirkjunnar. Breytt staða kirkjunnar hefur haft rík áhrif á starfsumhverfi presta og djákna og starfsöryggi þeirra er ekki hið sama og áður. Mögulegt er að vinna að þessu eftir ýmsum leiðum en það mikilvægasta hlýtur ávallt að vera að byggja upp góð samskipti og traust. Það verður aðeins gert með samtölum, reglulegum og uppbyggilegum samskiptum og með því að sjá til þess að allir hafi greiðan aðgang að upplýsingum um það sem er að eiga sér stað í kirkjunni.
Trúin ofar öllu
Ástæða þess að ég ákvað að gefa kost á mér til embættis biskups Íslands er fyrst og fremst sú að ég á mér einlæga trú á lifandi Guð. Ég hef trú á mátt bænarinnar og er sannfærð um að við erum öll Guði falin. Mér þykir vænt um kirkjuna mína og hef óbilandi trú á henni. Ég er sannfærð um að við getum með samstilltu átaki lyft henni hærra og gert hana sýnilegri sem sá griðastaður trúar, vonar og kærleika sem hún er.